RAUNÁVÖXTUN á erlendum verðbréfasjóðum verðbréfafyrirtækjanna á ársgrundvelli hefur heldur farið lækkandi á seinustu mánuðum og jafnvel orðið neikvæð, og segja forráðamenn fyrirtækjanna sem reka þessa sjóði að ástæðna sé að leita í hlutabréfaverði...

RAUNÁVÖXTUN á erlendum verðbréfasjóðum verðbréfafyrirtækjanna á ársgrundvelli hefur heldur farið lækkandi á seinustu mánuðum og jafnvel orðið neikvæð, og segja forráðamenn fyrirtækjanna sem reka þessa sjóði að ástæðna sé að leita í hlutabréfaverði erlendis sem hafi farið lækkandi undanfarið, í hækkandi vaxtastigi erlendis, styrkingu krónunnar og aukinni verðbólgu hérlendis sem hafi neikvæð áhrif á reiknaða raunávöxtun.

Á meðfylgjandi grafi kemur fram hvernig uppreiknuð ársraunávöxtun nokkurra sjóða, sem ætla má að séu tiltölulega samanburðarhæfir hvað varðar áhættustig og almenna samsetningu eigna, hefur verið á undanförnum þremur, sex og tólf mánuðum í þeim tilvikum sem gögn um hana er til. Sumir sjóðanna eru nýir á markaði og því aðeins til saga yfir þá í skamman tíma, en þessar upplýsingar birtast í Morgunblaðinu á Peningamarkaðssíðum.

Á grafinu má sjá að almenna þróunin hefur verið sú að uppreiknuð raunávöxtun miðað við heilt ár hefur lækkað og er í sumum tilvikum neikvæð. Allir leggja sjóðirnir áherslu á erlend hlutabréf eða erlend skuldabréf. Skiptast þeir í grófum dráttum niður í sjóði sem fjárfesta beint í ákveðnum hlutafélögum eða skuldabréfum, eða að þeir fjárfesta í öðrum sjóðum og kallast slíkir sjóðir sjóðasjóðir. Er almennt meiri dreifing á fjárfestingum þeirra síðarnefndu og ætti að vera minni áhætta hvað varðar sveiflur í arðsemi.

Til samanburðar er einnig birt sambærileg raunávöxtun samkvæmt hinni alþjóðlegu hlutabréfavísitölu Morgan Stanley Capital International, MSCI World, sem tekin er saman af Morgan Stanley fjárfestingarbankanum í New York. Í vísitölunni birtist útreikningur á veginni meðalávöxtun hlutabréfa hjá stærri fyrirtækjum sem eru á þróðaðri hlutabréfamörkuðum í heiminum.

Sitthvað reiknuð raunávöxtun og raunbreyting

Hvað tölur yfir 3 og 6 mánaða raunávöxtun sem birtast í töflunni varðar er rétt að taka fram að t.d. talan -8,1%, sem er uppreiknuð raunávöxtun Einingabréfa 6 miðað við þriggja mánaða breytingu, merkir ekki að eignir eða gengi viðkomandi sjóðs hafi rýrnað um 8,1% á þriggja mánaða tímabili. Þarna er hins vegar tekin breyting þriggja seinustu þriggja mánaða og reiknað út hver ársávöxtunin yrði ef þróunin yrði óbreytt í 12 mánuði.

Hina raunverulegu breytingu má gróft á litið áætla með því að deila í töluna með fjórum, sbr. fjóra ársfjórðunga. Þegar raunávöxtun er -8,1% má því áætla að raunveruleg lækkun á eign hafi verið nálægt -2%. Í tilviki sex mánaða breytinga má deila í með tveimur, sbr. tvo árshelminga. Hér er þó rétt að taka fram að þegar um hærri prósentutölur er að ræða, og til að fá fram hárrétta útkomu, þarf að beita veldisreikningi.

Útilokað er að fullyrða hvort þróun seinustu þriggja eða sex mánaða hjá einstökum verðbréfasjóðum muni haldast óbreytt í tólf mánuði. Hinar uppreiknuðu stærðir segja því oft lítið um það hver endanleg þróun muni koma til með að verða, en eru hins vegar gagnlegar til að átta sig á nýjustu atburðum.

Ef fjárfestir vill reyna að átta sig á hvort söguleg gögn gefi til kynna miklar eða litlar sveiflur í ávöxtun verðbréfasjóða er gjarnan litið til staðalfráviks ávöxtunar þeirra. Lágt staðalfrávik vísar á minni sveiflur ávöxtunar í fortíðinni. Hátt staðalfrávik gefur til kynna miklar sveiflur ávöxtunar í fortíðinni, sem merkir að viðkomandi verðbréfasjóður er talinn fremur áhættusamur vegna óvissu um ávöxtun til skamms tíma.

Þess skal getið að stundum er söguleg meðalarðsemi sjóða með hátt staðalfrávik í hærri kantinum, og eru slíkir sjóðir taldir ákjósanlegir fyrir þá sem sætta sig við áhættuna, sé ætlunin að fjárfesta til langs tíma. Jafnframt eru slíkir sjóðir taldir síður fýsilegur kostur til skemmri tíma ávöxtunar, vegna mögulegra sveiflna í ávöxtun.

Morgunblaðið innti fulltrúa verðbréfafyrirtækjanna sem um ræðir eftir viðbrögðum þeirra við lægri ávöxtunartölum undanfarið.

Yfirvegnir í Asíu

Ágúst Freyr Ingason, sem stýrir erlendum sjóðum hjá Búnaðarbanka Verðbréfum, segir um raunávöxtun Alþjóðlega hlutabréfasjóðsins upp á síðkastið að þróun sjóðsins sýni að almennt hafi verið gott árferði á þessu ári á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, og kannski hafi best gengið í Asíu.

"Við höfum tekið þá stöðu að hafa sjóðinn yfirveginn í Asíu, þ.e. að leggja meiri áherslu á hlutabréf þar, en hafa sjóðinn jafnframt undirveginn annars staðar. Það hefur skilað sér til fjárfesta," segir Ágúst.

Búnaðarbankinn Verðbréf rekur einnig Framsækna alþjóðlega hlutabréfasjóðinn, sem Ágúst segir að hann einbeiti sér aðallega að vaxandi atvinnugreinum og öðrum góðum vaxtartækifærum, og sé töluvert áhættusamari en hinn fyrrnefndi. Því ekki hafður með í samanburðinum, en raunávöxtun hans var 29,7% seinustu sex mánuði.

Auk þessa rekur Búnaðarbankinn Verðbréf Alþjóða skuldabréfasjóðinn sem skilaði neikvæðri raunávöxtun seinustu 6 mánuði upp á -18,9%. "Skýringin á þessum tölum er lækkandi skuldabréfaverð í kjölfar hækkandi vaxta, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Bandaríkjunum hafa vextir verið hækkaðir vegna áhyggna af þenslu svipað og hér á landi," segir Ágúst.

Ágúst bendir á hættur því samfara að horfa til talna yfir raunávöxtun sem byggð er á stuttum tíma. "Gallinn við þessar tölur að þær eru settar á ársgrundvöll, og þriggja mánaða breyting blásin upp í eitt ár sem er nálægt því að margfalda raunbreytinguna með fjórum. Þessar tölur geta verið misvísandi bæði þegar tölur eru í plús og mínus, svo ég bendi fólki alltaf á að skoða frekar 12 og 24 mánaða tölur," segir Ágúst.

Líta ber til lengri tíma

Raunávöxtun á erlendum sjóðum Kaupþings hf. hefur einnig farið minnkandi að undanförnu, en Kaupþing rekur sjóðina Einingabréf 5 sem er sjóður sem fjárfestir í erlendum hlutabréfum og Alþjóðlega hlutabréfasjóinn í útibúi sínu í Luxembourg, og einnig Einingabréf 6 og Alþjóðlega skuldabréfasjóðinn í Luxembourg en báðir fjárfesta í erlendum skuldabréfum.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar hjá eignastýringarsviði Kaupþings er meginskýringin vaxtahækkanir erlendis og verðlækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum á þessu tímabili.

Vilhjálmur kvaðst þó geta vel við unað, enda árangur sjóðanna betri en viðmiðunarvísitölur á sama tíma.

"Hafa verður í huga að fjárfesting í erlendum verðbréfum er til langs tíma og skammtímasveiflur hafa ekki áhrif á hversu fýsilegur kostur það er. Það eru alltaf skammtímasveiflur og það hittist einmitt þannig á í þessari þriggja mánaða mælingu. Þannig var gengið á alþjóðahlutabréfasjóðnum nærri 178 í lok júní en nærri 170 í lok september, mælt í íslenskum krónum. Kaupþing hins vegar metur árangur sjóða út frá alþjóðlegum mælikvörðum sem eru allsendis óháðir skammtímasveiflum," sagði Vilhjálmur, og bendir á að líta beri til lengri tímabila við fjárfestingarákvarðanir og varar við að ávöxtun í fortíð gefi ekki nauðsynlega vísbendingu um ávöxtun í framtíð.

Verðbólga og gengishækkun hafa áhrif

Friðrik Magnússon, deildarstjóri eignastýringar hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka, VÍB, segir að VÍB reki nú þrjá erlenda hlutabréfasjóði. Sjóður 14 sem fjárfesti í einstökum félögum, en Sjóður 12 fjárfesti í sjóðum. Einnig rekur VÍB Sjóð 13 sem fjárfestir á svokölluðum nýmörkuðum, sem eru t.d. í SA-Asíu og S-Ameríku, en að sögn Friðriks er sá sjóður það nýtilkominn að ávöxtunartölur eru enn ekki komnar. Hann segir að áhættustig í Sjóði 14 sé fremur hátt, en miðlungs mikil í Sjóði 12 sé miðað við erlenda fjárfestingu.

Aðspurður um ástæður þeirrar þróunar sem orðið hefur á Sjóðum 12 og 14 segir Friðrik lækkun hafi orðið frá miðju ári á erlendum hlutabréfamörkuðum sem komi fram þarna. "Það hefur einnig haft áhrif að íslenska krónan hefur verið að styrkjast sem gerir þann erlenda gjaldmiðil sem þessi hlutabréf eru í verðminni. Einnig hefur verið mikil verðbólga hér á landi sem hefur neikvæð áhrif á útreikning raunávöxtunar. Nú hefur verið um 10% verðbólga á ársgrundvelli seinustu tvo mánuði," segir Friðrik.

Um ástæður þess að Sjóðir 12 og 14 lækka mun meir en sjóðir annarra verðbréfafyrirtækja segir Friðrik að eignir þeirra séu að vaxa mjög og að eignadreifingin sé ekki orðin enn sú sem stefnt er að. "Í sjóði 14 verða sveiflurnar töluverðar vegna þess að fjárfest er í frekar fáum sérvöldum félögum en í staðinn er vænt ávöxtun hærri til lengri tíma litið," segir Friðrik.

Augljós áhrif verðbólgu og gengisbreytinga

Landsbréf hf. reka þrjá verðbréfasjóði á eynni Guernsey, undir nafninu Fortuna I til III. Árni Jón Árnason, sjóðsstjóri hjá Landsbréfum, segir að Fortuna I og Fortuna II séu ekki hreinir erlendir sjóðir, en 15-60% af fjármagni þeirra er fest í íslenskum hlutabréfum. Fortuna III er blandaður sjóður sem inniheldur aðeins erlend hluta- og skuldabréf.

Á peningamarkaðssíðu Morgunblaðsins er nafnávöxtun þessara sjóða birt í Evrum. Ef þessar tölur eru færðar til raunávöxtunar í íslenskum krónum sést hve mikil áhrif styrking krónunnar og óvenju mikil verðbólga á Íslandi seinustu mánuði einar sér hafa á raunávöxtunina. Þannig var nafnávöxtun Fortuna I sjóðsins 21,76% miðað við þriggja mánaða breytingu og 10,54% miðað við sex mánaða breytingu. En raunávöxtunin í íslenskum krónum er hins vegar neikvæð eða -4,88% og -5,21%, í sömu röð. Sambærilegar tölur fyrir Fortuna II sjóðinn eru nafnávöxtun í evrum upp á 18,40% og 7,62% annars vegar, en neikvæð raunávöxtun í krónum upp á -7,50% og -7,71% hinsvegar. Tölurnar fyrir Fortuna III eru 29,02% og 18,81% annars vegar, en 0,80% og 1,88% hins vegar.

Hvað framtíðin mun bera í skauti sér er erfitt að segja. Varla er að búast við að áhrif verðbólgu gangi til baka, en til þess þyrfti að verða verðhjöðnun í íslenska hagkerfinu. Og verðbólgan hefur raunar sömu áhrif á raunávöxtun innlendra fjárfestinga. En ef gengi krónunnar hættir að styrkjast og tekur að falla gagnvart erlendum gjaldmiðlum myndu þessi áhrif að einhverju leiti ganga til baka og nafnávöxtun í íslenskum krónum verða meiri en nafnávöxtun í hinum erlendu gjaldmiðlum, á því tímabili.