ÍSLAND hefur lifað sína þúsöld byggt fólki og eignast sína sögu frá því fyrsti maður steig hér á land til að hefja sambýli með ref og rjúpu og öðru því heimskautafé úr dýraríkinu, sem á sér bólfestu á norðurhjaranum.

ÍSLAND hefur lifað sína þúsöld byggt fólki og eignast sína sögu frá því fyrsti maður steig hér á land til að hefja sambýli með ref og rjúpu og öðru því heimskautafé úr dýraríkinu, sem á sér bólfestu á norðurhjaranum. Okkur er þessi saga að mestu leyti kunn þökk sé ritandi mönnum, sem komu við sögu strax með Ara fróða og síðan. Allar götur frá upphafi höfum við deilt um sannleiksgildi einstaka skrifaðra þátta í sögu okkar og þá stundum gleymt að öll er sagan gild og gefur heildarblæ af lífi okkar hvort sem við vorum um þrjátíu þúsund manns eða hundrað þúsund, hvort sem við týndum niður vegum milli landshluta eða vantaði snæri og hvort sem við höfum að éta eða ekki. Núna erum við rúm tvö hundruð og sjötíu þúsund manns og þá er helst að heyra, að fólk vilji flýta sér eins og það getur að týna niður flestu því sem íslenskt er. Tungan kemur afbökuð úr fjölmiðlum svo raun er að. "Eigðu góða helgi", segja menn þegar þeir kveðjast að lokinni vinnuviku og annað er eftir því, þar sem hugsunarleysi, eftiröpunarárátta og þrotlaus efnisflutningur ljósvakamiðla á erlendu efni helst í hendur. Nú þegar tuttugustu öldinni er að ljúka hefði mátt hugsa sér að ljósvakamiðlar með snefil af metnaði væru ekki svo ofurseldir poppi og öðru skemmtiefni dagsins, að þeim gæfist tími til að flytja okkur eitthvað frá öldinni sem er að líða. Hún er nefnilega ekkert ómerkilegri en aðrar aldir, sem liðið hafa hér á landi á meðan það hefur verið í byggð. Dagleg umræða einkennist annarsvegar af mikilli bjartsýni, þar sem allir eru sagðir búa við aukinn kaupmátt, en að hinu leytinu búum við daglega við svartagallsraus svokallaðrar stjórnarandstöðu, sem segir að allt þjóðlíf sé sokkið á fertugt dýpi. Má maður, sem hefur verið áheyrandi að svona stjórnarandstöðurausi heila mannsæfi benda á að tuttugasta öldin hefur verið mesta framfaraöldin í sögu landsins, þótt hún hafi orðið að búa við svarta kreppu frá 1931 til 1940. Á þeim tíma vorum við svo illa sett, að hér var tekin upp nánast eins konar ráðstjórn með skömmtunum og höftum, sem aldrei ætlaði að linna. Núna er allt ómögulegt af því að ekki er atvinnuleysi og fólki er sagt að orðið hafi kaupmáttaraukning. Þótt hún hafi orðið bókhaldslega séð virðist enginn hafa orðið var við hana. En allt tal um góðærið eykur óánægju þeirra sem verr eru settir. Þessu karpi linnir sem sagt aldrei en kjararöflið er eitt af því fáa sem við höfum ekki getað hermt eftir útlendingum. Nú er ástæða til að nefna að sjónvörpin og útvörpin ættu að rífa sig upp af sínum feitu rössum og reyna að hugsa fyrir þáttagerð í minningu aldar, sem er að verða liðin, "horfin í aldanna skaut", eins og segir í sálminum. Að vísu er tíminn næstum liðinn fyrir svo viðamikinn undirbúning dagskráratriða, sem voru við hæfi í tilefni af aldaskiptunum. En það mætti reyna að gera einhverja þætti, sem segðu frá því hvernig við vorum búin til daglegra starfa allt fram undir 1920, þegar við voru enn að mestu járnaldarfólk í atvinnuháttum eins og á landnámsöld, nema hvað við höfðum lagt niður sverð og spjót. Það mætti taka krepputímann án öfga, sem var svo líkur ráðstjórn og síðan mætti geta að nokkru þeirrar ógnar bjartsýni, sem heltók þjóðina upp úr stríðinu, þegar hún steig í nælonsokkum og garberdínfötum út í heiminn til að leika stóra karla með heila skipsfarma af söltuðum gærum gamla tímans. Erlendis hafa sjónvarpsstöðvar verið að sýna þætti frá tuttugustu öldinni og þá ekki einvörðungu verið bundnar við eigin þjóðfélög. CNN hefur verið að sýna þætti frá helstu atburðum 20. aldar eins og þeir hafa geymst á filmubútum, en á þeim árum þegar ekkert sjónvarp var til, var tekið mikið af fréttakvikmyndum, sem síðan voru sýndar sem aukamyndir í kvikmyndahúsum. Þetta gafst vel, en eftir að sjónvarp kom til sögunnar féll þessi tegund fréttamynda niður. Nú virðast stöðvar eins og CNN leggja nokkurt kapp á að vinna úr þessum myndabútum og fá úr þeim ágætar heimildamyndir. En þeir gera textann upp á nýtt og er það til bóta. Þannig er hægt að hafa not af hinum hörðustu áróðursmyndum. Mikið kvikmyndasafn er til hér á landi frá því fyrr á öldinni og er þá ekki átt við leiknar myndir, þótt gera mætti heimildamynd um þær. Mætti byrja á Borgarættinni eftir Gunnar Gunnarsson. Kvikmyndasafn ríkisins ætti að hafa veg og vanda af því að safna þessu efni saman óunnu, en síðan gætu sjónvörpin tekið við og smíðað þætti með nýju tali, vegna þess að betur mun gefast að opinber aðili leiti eftir þessu efni erlendis en fyrirtæki. Auðvitað verður að kosta til við eftirtökur. Við fyrstu athugun koma upp í hugann sænsk heimildamynd, Fager er lien, einnig mynd sem Guðmundur Kamban var að gera hér fyrir stríð á vegum Þjóðverja og fjöldinn allur af myndum eftir Íslendinga bæði hér heima og erlendis. Það væri verðugt fyrir sjónvörpin að gera þessum gömlu görpum einhver skil fyrst öldin er að yfirgefa okkur.

Indriði G. Þorsteinsson