ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR mun um næstu áramót hefja samstarf við nýja aðila um innheimtu íbúðalána en nýlega var innheimtan boðin út til 10 ára.

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR mun um næstu áramót hefja samstarf við nýja aðila um innheimtu íbúðalána en nýlega var innheimtan boðin út til 10 ára.

Íbúðalánasjóður hefur frá áramótum átt í góðu samstarfi við Búnaðarbankann á Sauðárkróki um innheimtu íbúðalána, segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum, en lögum samkvæmt skal stjórn Íbúðalánasjóðs semja við lánastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.

Í tengslum við útboð á innheimtu íbúðalána voru fleiri þættir tengdir þjónustu Íbúðalánasjóðs boðnir út, þ.m.t. bókhalds- og upplýsingakerfi fyrir sjóðinn, en Íbúðalánasjóður stefnir að því að bæta verulega möguleika sína til skilvirkrar upplýsingaöflunar og -gjafar um rekstur og stöðu sjóðsins hverju sinni.

116 m. kr. munur á hæsta og lægsta tilboði

Mikill munur var á boði lægstbjóðanda og þeirra sem buðu hæst, eða 116 milljónir króna, en sjö tilboð bárust frá sex aðilum.

Tilboð Kögunar hf. hljóðaði upp á 177.400.000 kr., Íslandsbanka hf. upp á 153.641.322 kr., tilboð Strengs hf. var 129.612.400 kr. Skýrr hf. var með 2 tilboð, annað var 115.900.000 kr. og hitt 113.900.000 kr., Þróun hf. bauð 91.550.000 kr. og Fjárvaki ehf. 61.714.500 kr. Tilboði Fjárvaka ehf. á Sauðárkróki var tekið, en það fyrirtæki hefur verið samstarfsaðili Búnaðarbankans við innheimtu undanfarið. Samningurinn tekur gildi 1. mars 2000 og er til 10 ára en samstarfsaðilar Fjárvaka eru Opin kerfi hf., Sparisjóður Norðlendinga, Sparisjóður Hólahrepps og Element hf.

Hugbúnaðurinn sem lagður verður til grundvallar nýja upplýsingakerfinu er Flexcube viðskiptahugbúnaður frá fyrirtækinu Citel, sem hannaður er fyrir banka og fjármálafyrirtæki. Um er að ræða skuldabréfakerfi, fjárhagsbókhald og upplýsingakerfi fyrir stjórnendur (MIS). Netviðmót hugbúnaðarins mun vera einfalt og eiginleikar kerfisins eru taldir henta vel til upplýsingagjafar á Netinu.

Í fréttatilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir að þegar í upphafi náist betri samhæfing skuldabréfasafna og fjárhagsbókhalds en nú er. Það hafi í för með sér mikla einföldun í vinnslu bókhalds, uppreikningi skuldabréfa og upplýsingagjöf Íbúðalánasjóðs.