FYRIRTÆKIÐ Háess ehf., sem rekur herrafataverslanir á Laugavegi og í Kringlunni, hefur keypt skóverslanir Steinars Waage hf. í Kringlunni og í Domus Medica, verslunina Toppskóinn í Veltusundi og tískuverslunina Cöru í Kringlunni.

FYRIRTÆKIÐ Háess ehf., sem rekur herrafataverslanir á Laugavegi og í Kringlunni, hefur keypt skóverslanir Steinars Waage hf. í Kringlunni og í Domus Medica, verslunina Toppskóinn í Veltusundi og tískuverslunina Cöru í Kringlunni. Kaupsamningur var undirritaður í gær, að því er fram kemur í fréttatilkynningu en kaupverð er trúnaðarmál.

Eigendur Háess eru Hákon Magnússon, Hákon Hákonarson og Sigurjón Örn Þórsson. Fyrirtækið rekur verslanirnar Herragarðinn í Kringlunni og á Laugavegi, Hanz og Blues í Kringlunni og á einnig 60% hlut í nýrri Hugo Boss-verslun í Kringlunni. Með kaupunum er stefnt að hagræðingu í rekstri, segir í fréttatilkynningunni. Nota á hagkvæmni stærðarinnar til að lækka vöruverð til neytenda, auka vöruúrval og bæta þjónustu.

Hákon Hákonarson, einn eigenda Háess, segir aðdragandann að kaupunum stuttan, í samtali við Morgunblaðið. Hann segist vonast til þess að hagræðing við sameiningu fyrirtækjanna skili sér til neytenda á næsta ári. "Það næst mikil hagræðing í innkaupum og með tölvuvæðingu verslananna," segir Hákon. "Við ákváðum að kaupa skóverslunina til að ná fram hagkvæmri stærð á fyrirtækið."

Steinar Waage og fjölskylda hafa rekið skóverslanir í Reykjavík í áratugi. Snorri Waage framkvæmdastjóri mun enn um sinn starfa hjá fyrirtækinu. "Það eru viðsjárverðir tímar framundan í íslenskri verslun sem betra er að stærri fyrirtæki takist á við," segir Snorri í samtali við Morgunblaðið. "Steinar Waage hf. er fjölskyldufyrirtæki en faðir minn Steinar hefur dregið sig út úr rekstrinum vegna veikinda. Við vildum athuga möguleika á sölu og eitt leiddi af öðru og fyrirtækið var selt. Mér líst vel á nýja eigendur og er ánægður með viðskiptin," segir Snorri.