GREINAR Matthíasar Viðars Sæmundssonar, Flugur og Fjöll I-IV, sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins{+1} seint á síðasta ári eru andsvar Matthíasar við gagnrýnum skrifum Kristjáns Kristjánssonar{+2} heimspekings um póstmódernisma.
GREINAR Matthíasar Viðars Sæmundssonar, Flugur og Fjöll I-IV, sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins{+1} seint á síðasta ári eru andsvar Matthíasar við gagnrýnum skrifum Kristjáns Kristjánssonar{+2} heimspekings um póstmódernisma. Þar spyrðir Matthías saman þá Kristján og Þorvald Thoroddsen (1855-1921) jarðfræðing, sem andstæðinga "sundurtektar og fjölbreytni" (MVS IV), þar eð hann telur þá báða hafa aðhyllst

"upplýstar skynsemishugsjónir átjándu aldar sem stefnt er gegn hnignun nútímans í stórorðum heimsósómastíl, enda má greina undarlega endurkomu nú á dögum því vofa Nietzsches gengur ljósum logum á nýjan leik, við önnur aldamót, umræða lista- og fræðimanna hverfist enn á ný um skrif sem urðu hluti af fortíð okkar fyrir hartnær einni öld ..." (MVS I).

Með þessum gjörningi, þ.e. að spyrða Þorvald og Kristján saman sem fylgismenn skynsemishugsjóna átjándu aldar, gerir Matthías, sem greinilega lítur á sig sem fylgismann sundurtektar og fjölbreytni, sig sekan um samantekt og einsleitni.{+3} Ástæða þessa er sú að í greinasafninu "Vísindalegar nýjungar og stefnubreytingar nútímans" frá 1910,{+4} sem Matthías leggur til grundvallar túlkun sinni á skoðunum Þorvaldar, virðist Þorvaldur hafna flestu því sem við tengjum skynsemishugsjónum 18. aldar.

Mun ég hér á eftir færa rök fyrir þeirri skoðun minni að Matthías hafi mistúlkað greinasafn Þorvaldar frá 1910 og þar með ekki leyft Þorvaldi að njóta sannmælis. Þetta mun ég gera með því að bera áðurnefnda grein saman við grein sem Þorvaldur skrifaði árið 1901,{+5} en á tímabilinu 1901-1910 umpólaðist heimsmynd hans. Það sem í ljós mun koma er eftirfarandi: Matthías einblínir á skrif Þorvaldar um listir og menningu, og ber þau saman við skrif Kristjáns um sama efni, og dregur þá ályktun að báðir hafi mennirnir stjórnast af skynsemiskröfu upplýsingarinnar. En ef litið er betur á skrif Þorvaldar um vísindi og stjórnmál í greinasafninu og sú umræða tengd umræðu Þorvaldar um aðra þætti menningarinnar kemur í ljós að þetta á ekki við um hann.

II

Í niðurlagi greinasafnsins "Tíðarandi í aldarlok" segir Kristján Kristjánsson m.a.:

"Óskandi væri að hruni pm-ismans fylgdi almennt afturhvarf til hugsjóna upplýsingarinnar, er hafa sem betur fer varðveist í hópum hefðbundinna heimspekinga og raunvísindamanna: hugsjóna þar sem hlutlæg þekkingarleit, sammannlegur skilningur og eining alls mannkyns eru höfuðkeppikeflin" (KK X).

Kristján ber greinileg mikla virðingu fyrir "hlutlægri" þekkingarleit vísindamanna nútímans, eins og "sönnum" upplýsingarmanni ber. Svipað var uppi á teningnum í aldamótahugleiðingu Þorvaldar frá 1901. Þar taldi Þorvaldur grundvöll allra framfara, jafnt í efnis- sem andlegum efnum, liggja í beitingu vísinda, þar sem lögmálið um varðveislu orkunnar varðar veginn, og í aukinni menntun. En fljótt skipast veður í lofti! Í greinasafninu "Vísindalegar nýjungar og stefnubreytingar nútímans", frá 1910, var Þorvaldur kominn á þá skoðun að það hafi verið miður að lífssýn jafnt leikra sem lærðra 19. aldar manna hafi mótast af kenningum náttúruvísinda:

"Lífsskoðanir manna á 19. öld stóðu með allri sinni margbreytni í nánu sambandi við kenningar náttúruvísindanna, [að meðtalinni efnishyggjunni, ... en hún] er í raun réttri mjög grunnhugsuð og getur alls ekki staðist vísindalega röksemdaleiðslu." Að mati Þorvaldar voru "úrvalskenningin{+6} og hin mekaniska heimsskoðun [] að hverfa úr sögunni".{+7}

Sömu umskipti má sjá á stjórnmálaskoðunum Þorvaldar. Árið 1901 var hann lýðræðissinni og fór hlýjum orðum um lýðræðistilburðina sem átt höfðu sér stað víða í Evrópu:

"Æði-ólíkt er það nú því er áður var, hve mikið alþýða tekur þátt í opinberum málum, og virðist mér [íslensk alþýða] gera það alveg eins myndarlega eins og alþýða í öðrum löndum."{+8}

Níu árum seinna fór Þorvaldur hins vegar hörðum orðum lýðræðið og framkvæmd þess. Þorvaldur sagði vitra menn vera hrædda um að "þingræðið muni leiða til stórvandræða í framtíðinni, til taumlausrar eyðslu og skrumaraveldis, sem örðugt verður að búa undir fyrir hinar mentuðu stéttir". Þetta skapist af því að yfirleitt stríði það gegn lögmálum náttúrunnar "að gera alla jafna; er því óframkvæmanlegt og heimska að byggja framtíðarvonir á slíku".{+9}

Afstaða Þorvaldar til tilverunnar gjörbreyttist einhverntíma á árabilinu 1901- 1910 en þar laust saman hugmyndafræði rómantíkur og upplýsingar, líkt og sjá má þegar skrif Thomas Kuhns og Karl Poppers eru borin saman.{+1}{+0} Hver ástæða þessara umskipta var læt ég hér kyrrt liggja, en vangaveltur um hugsanlegar orsakir þeirra, auk ítarlegri umfjöllunar um þróun heimsmyndar Þorvaldar, má finna í inngangi mínum að Lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta eftir Þorvald.

Skrif Þorvaldar í Eimreiðinni árið 1910 bera öll merki þess að hann hafi verið orðinn einlægur fylgismaður síð-rómantísku heildarhyggjuhreyfingarinnar sem spratt upp í Þýskalandi um 1890, en áhrifa hennar gætti víða í þýskum vísindum og menningu fram á þriðja og fjórða áratug þessarar aldar{+1}{+1} Einkenni hreyfingarinnar var andóf gegn pósitívisma og efnishyggju; einstaklingshyggju og frelsishugmyndum millistéttarinnar; blindri trú á vísindi, tækni og framfarir; og því sjónarmiði að maðurinn sé einungis tilgangslaus vél. Markmiðið var að endurvekja húmanisma rómantíkurinnar og koma hugmyndum um tilgang aftur inn í umræðuna um lífið og tilveruna, en eitt af slagorðum hreyfingarinnar var "Aftur til Goethes".{+1}{+2} Þessar hugsjónir koma allar með einum eða öðrum hætti fram í greinasafni Þorvaldar frá 1910 og eiga þær augljóslega lítið skylt við túlkun Kristjáns Kristjánssonar á "upplýstum skynsemishugsjónum átjándu aldar".

III

Matthías hefur því ekki gætt að sér er hann ákvað að nota Þorvald Thoroddsen til að undirstrika gagnrýni sína á Kristján Kristjánsson og fyrir vikið gert sig sekan um nokkuð losaraleg vinnubrögð. Hann mistúlkar megininntakið í greinasafni Þorvaldar (1910), sem var gagnrýnin úttekt rómantísks hugsuðar á samtíð sinni. Skýringin er e.t.v. sú að Þorvaldur og Kristján fjölluðu báðir á mjög gagnrýninn hátt um þýska heimspekinginn Friedrich Nietzsche, en Matthías telur þá báða eiga "sér höfuðandstæðing í Friedrich Nietzsche, þegar öll kurl koma til grafar" (MVS I). Þetta getur vel verið rétt, en í ljósi þess sem á undan er komið má ljóst vera að forsendur gagnrýni þeirra á Nietzsche eru ekki þær sömu; annar var með ákveðna hugmynd um arf upplýsingarinnar að vopni en hinn með rómantíska andúð á skynsemishyggju, sem að hans mati hafði þróast út í mannfjandsamlega tæknihyggju. Þessu til áréttingar virðist sem gagnrýni Kristjáns á Nietzsche sé á þekkingarfræðilegum nótum (KK II), meðan gagnrýni Þorvaldar er á frumspekilegum, nánast guðfræðilegum, nótum, en Þorvaldur hafði þetta að segja í niðurlagi umfjöllunar sinnar um Nietzsche:

"Nietzsche var í lok 19. aldar spámaður allra þeirra, sem hata kristindóminn, hinna andlega voluðu ... Það hefði verið matur fyrir galdrabrennuklerka á 16. eða 17. öld að ná í Nietzsche, til þess að brenna hann; þá voru einmitt margir slíkir ruglaðir vesalingar brenndir, þó minni væru sakir ... Yfir brennu Nietzsches hefði vel átt við fyrir klerka að syngja þetta gamla sálmavers ...: Djöfullinn dóm þá, / dárlega fyrir verk sín, / maklega mun fá, / mín gleði er hans pín, / ískrandi heit, hná, / helsótt er ei dvín, / plágar það pintsvín."{+1}{+2}

{+1}Matthías Viðar Sæmundsson, "Flugur og Fjöll I-IV" (MSV I-IV). Lesbók Morgunblaðsins, 14. nóv. - 5. des. 1998. Vísað verður til þessara greina sem MSV I-IV.

{+2}Kristján Kristjánsson, "Tíðarandi í aldarlok, I-X. Lesbók Morgunblaðsins, 6. sept - 8.nóv. 1997. Vísað verður til þessara greina sem KK I-X.

{+3}Eitt af markmiðum póstmódernískrar aðferðafræði er að gefa öllum skoðunum færi á að koma fram en ekki þvinga skoðanir manna í einn farveg og halda þeim þar.

{+4}Þorvaldur Thoroddsen, "Vísindalegar nýjungar og stefnubreytingar nútímans I-III". Eimreiðin, 26: 1- 13, 77-102 og 199-224, 1910. Vísað verður til þessara greina sem ÞTH I-III.

{+5}Þorvaldur Thoroddsen. "Hugleiðingar um aldamótin". Andvari, 27: 1-52, 1901, bls. 48 og 51.

{+6}Þorvaldur hafnar hér þróunarkenningu Darwins sem hann hafði áður haft miklar mætur á, sbr. Þorvaldur Thoroddsen, Um uppruna dýrategunda og jurta. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, [1887-89] 1998. Steindór J. Erlingsson ritaði inngang og sá um útgáfuna.

{+7} ÞTH III, bls 199-200 og 202. Umfjöllun Þorvaldar um náttúruvísindin má finna í ÞTH II, bls. 88-99.

{+8}Þorvaldur Thoroddsen. "Hugleiðingar um aldamótin", bls. 41.

{+9}ÞTH III, bls. 204-5 og 207.

{+1}{+0}David Bloor, Knowledge and Social Imagery. Chicago: University of Chicago Press, [1976] 1991, bls. 55-83.

{+1}{+1}Sjá t.d. Anne Harrington, Reenchanted Science: Holism in German Culture from Wilhelm II to Hitler. Princeton: Princeton University Press, 1996.

{+1}{+2}Harrington, Reenchanted Science, bls. 26.

{+1}{+3}ÞTH III, bls 215-16.

EFTIR STEINDÓR J. ERLINGSSON