STEPHAN Stephensen ljósmyndari opnar sýningu á verkum sínum í Galleríi Sævars Karls í Bankastræti í dag kl. 14. Á sýningunni eru ljósmyndir sem listamaðurinn hefur tekið af líkömum víðsvegar um heiminn á undanförnum misserum.

STEPHAN Stephensen ljósmyndari opnar sýningu á verkum sínum í Galleríi Sævars Karls í Bankastræti í dag kl. 14. Á sýningunni eru ljósmyndir sem listamaðurinn hefur tekið af líkömum víðsvegar um heiminn á undanförnum misserum.

Stephan Stephensen er fæddur árið 1971. Eftir hefðbundið nám hérlendis lagði hann stund á ljósmyndanám í París 1992-1995. 1995 stofnaði hann fjöllistahópinn GusGus ásamt félögum, en samspil tóna og mynda hefur verið aðal hljómsveitarinnar frá upphafi.Í sýningaskrá segir m.a.: "Karlmaðurinn er raunar með undarlegri skepnum og ýmislegt er það sem aðskilur hann frá kvendýri sömu tegundar. Þar ber auðvitað ístruna hæst, en hana bera margir þeirra framan á sér fitumikla og slappa. Ístruna eða bumbuna á karlmaðurinn hins vegar sameiginlega með hinum dæmigerðu raðhúsadýrunum, hundinum og kettinum. Hjá öðrum dýrum ríkir hárfínt jafnvægi milli stærðar og þyngdar. Ístran er nefnilega fyrirbæri sem ættað er frá þeim tímum þegar mannlegum einstaklingum tókst ekki lengur að brenna jafn miklu og þeir settu ofan í sig. Hún flyst lymskulega á milli kynslóða og alltaf án þess að gera boð á undan sér.

Þessar léttúðugu ljósmyndir gefa líka margt annað í skyn. Enda er ein ístra líka annað og meira en bara hún sjálf.

Hún er t.d. hljóðbelgur sem gefur frá sér muldur og gaul, skilaboð um að hún þurfi meira en fær samt aldrei nóg. Þó eigandi bumbunnar viti hvaðan skilaboðin koma eru þau honum í flestum tilvikum gjörsamlega ofviða."