ÚTVEGSMENN telja mikilvægt að sátt náist við sjómenn í komandi kjarasamningum til langs tíma. Til þess að svo megi verða þarf að ná samkomulagi um að heildarlaunakostnaður útgerðar taki mið af því þegar tekin er í notkun ný tækni og fækkað er í áhöfn.

ÚTVEGSMENN telja mikilvægt að sátt náist við sjómenn í komandi kjarasamningum til langs tíma. Til þess að svo megi verða þarf að ná samkomulagi um að heildarlaunakostnaður útgerðar taki mið af því þegar tekin er í notkun ný tækni og fækkað er í áhöfn. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Landssambands íslenskra útvegsmanna sem haldin var í gær.

Í ályktun fundarins var batnandi ástandi þorskstofnsins á undanförnum árum fagnað og ótvíræðum vísbendinum um að óhætt verði að auka þorskveiðar á næstu árum. Þrátt fyrir jákvæð áhrif hlýsjávar væri það áhyggjuefni hversu loðnuveiði gekk illa í sumar. Minnkandi rækjustofn hafi ennfremur valdið miklum samdrætti í rækjuveiðum og vinnslu. Óviðunandi stofnmæling á úthafskarfa hafi auk þess orðið til þess að lögð er til mikil skerðing á heildarafla. Þá valdi mikil skerðing á veiðiheimildum í skarkola miklum erfiðleikum. Þessar aðstæður í hafa telja útvegsmenn að kalli á að fyllsta aðhalds sé gætt í öllum tilkostnaði við veiðarnar.

Í ályktun fundarins segir enn fremur að verð á helstu botnfiskafurðum í miklvægustu markaðslöndum Íslendinga hafi lækkað nokkuð undanfarið. Þá hafi verð á mjöli og lýsi lækkað um meira en helming á einu ári, þótt nú bendi margt til þess að botninum sé náð. Innlent verðlag hafi farið hækkandi og gæta þurfi þess að verðbólga verði ekki viðvarandi vandamál að nýju. Verð á olíu hafi hækkað mikið á árinu eftir að hafa verið í sögulegu lámarki um síðustu áramót.

Auðlindaskattur er lands- byggðaskattur

Fundurinn taldi ennfremur mikilvægt að samkeppnisstaða sjávarútvegsins á erlendum mörkuðum verði ekki skert með sérstökum skatti á útveginn. Auðlindaskattur væri fyrst og fremst landsbyggðarskattur, þar sem sjávarútvegsfyrirtæki væru rekin í sjávarbyggðum við strendur landsins. Nú þegar greiddi útgerðin á annan milljarð króna á ári í sérstök eftirlits- og þróunargjöld. Frekari álögur á greinina myndu enn auka á þær fjárhagslegu þrengingar sem mörg fyrirtæki í greininni eiga við að stríða. Þá varaði fundurinn við þeirri miklu vaxtahækkun sem orðin er hér á landi og hækkun gengis íslensku krónunnar í kjölfarið gagnvart mikilvægum viðskiptamyntum. Þessi þróun rýri samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar og sé nú þegar komin að hættumörkum.

Ennfremur lagði fundurinn til að starfsemi Kvótaþings verði hætt og lög um það verði afnumin strax. Þá var talið nauðsynlegt að kanna hvort hægt sé að koma starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs fyrir með öðrum hætti en á vegum ríkisins, t.d. samningsaðila sjálfra.