[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jim McAllister (Matthew Broderick) er kennari á fertugsaldri og einn af þeim sem krökkunum líkar. Hann er lágvaxinn, snyrtilegur, góðviljaður nemendum og með góðan húmor. Tvisvar sinnum hefur hann verið kjörinn kennari ársins.

Jim McAllister (Matthew Broderick) er kennari á fertugsaldri og einn af þeim sem krökkunum líkar. Hann er lágvaxinn, snyrtilegur, góðviljaður nemendum og með góðan húmor. Tvisvar sinnum hefur hann verið kjörinn kennari ársins. Kollegi hans og vinur, Dave Novotny (Mark Harelik), verður ástfanginn af Tracy Flick (Reese Witherspoon), fyrirmyndarnemanda í skólanum, og þegar upp um sambandið kemst er hann rekinn og eiginkonan fær húsið og bílinn. Þegar kjósa skal formann nemendaráðs skólans er Tracy í framboði og þess fullviss að hún muni bera sigur af hólmi eða þar til McAllister ákveður að grípa til sinna ráða.

"Það var ekki vegna þess að hún gerist í menntaskóla sem ég ákvað að gera þessa mynd því ég hef engan áhuga á slíkum myndum," er haft eftir leikstjóra gamanmyndarinnar Kosningar, Alexander Payne, sem gerði einnig kvikmyndahandritið ásamt Jim Taylor upp úr samnefndri bók Tom Perrottas. "Mér líkaði bókin ákaflega vel og persónur hennar. Það er tregablandinn tónn í sögunni og persónurnar eru breyskar."

Sagan er pólitísk háðsádeila sem Perrottas byggði á tveimur atburðum sérstaklega; þegar íhaldssamur skólastjóri í Suðurríkjunum ógilti kosningar er í ljós kom að sigurvegarinn var ólétt, og á forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 1992.

Leikstjórinn Payne gerði áður Borgara Ruth með Laura Dern í aðalhlutverki og var það hans fyrsta mynd. Hann leggur áherslu á raunsæi í myndum sínum og var Kosningar til dæmis tekin í raunverulegum menntaskóla en ekki í kvikmyndaveri. "Það er svar mitt við öllum fínheitunum í Hollywood-myndunum. Það skiptir ekki máli um hvað myndirnar fjalla, hvort sem þær eru með Julia Roberts, Al Pacino eða Susan Sarandon að deyja úr krabbameini, umhverfið er allt svo glæsilegt, allir tilheyra efri miðstéttinni og búa í stórhýsum og aka um á rándýrum bílum. Þegar ég gerði Kosningar skoðaði ég aðrar menntaskólamyndir og þær gerðust líka í þessu vandaða og glæsilega Hollywood-umhverfi þar sem hvergi er rykkorn að finna og sólin skín í gegnum rimlagluggatjöld. Það á ekkert skylt við raunveruleikann."

Myndin er tekin í Omaha í Nebraska en Payne er alinn þar upp. "Ég býst við að Kosningar sé gerð í Omaha af sömu ástæðu og "Ratcatcher" er gerð í Glasgow og Woody Allen tekur myndirnar sínar í New York," segir leikstjórinn. "Manni finnst betra að starfa þar sem maður þekkir vel til, þar sem rætur manns liggja."

Matthew Broderick lék áður nemanda í menntaskóla ("Ferris Buellers Day Off") en hefur nú elst og þroskast í kennarahlutverkin. Hann hefur verið nokkuð áberandi í Hollywood-myndunum upp á síðkastið eftir nokkur mögur ár þar á undan, fór með aðalhlutverkið í Godzillu og Tækjalöggunni eða "Inspector Gadget".