[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heiðin og kristin siðfræði mætast í leikritinu Frá goðum til Guðs, sem Furðuleikhúsið frumsýnir í Tjarnarbíói í dag kl. 17. MARGRÉT SVEINBJÖRNSDÓTTIR fylgdist með æfingu og fór í tímaferðalag aftur til ársins 999 að Ljósavatni.

KRISTJÁN heitir drengur sem á heima í Granaskjólinu, gengur um með GSM-síma í vasanum og hefur mikinn áhuga á víkingaöldinni og heiðnum sið. Hann liggur löngum stundum í bókum um þetta áhugamál sitt og sveiflar þess á milli trésverði af miklum móð. Hann veltir því fyrir sér hvernig það hafi verið að vera uppi á víkingaöld og gælir við þá hugmynd að fara í ferðalag aftur í tímann.

Og viti menn, einn góðan veðurdag verður strák að ósk sinni. Hann kynnist Þórunni dóttur Þorgeirs Ljósvetningagoða - og með henni heimi og hugsunarhætti gjörólíkum þeim sem hann hefur áður þekkt. Yfir og allt um kring er svo örlagadísin sem sveiflar Kristjáni milli hinna ólíku tímaskeiða - frá nútímanum árið 1999 aftur til 999 og til baka. Fleiri persónur koma við sögu, svo sem Ljósvetningagoðinn sjálfur - að ógleymdum feldinum - kona hans, Guðríður, og sonur þeirra, Þorkell hákur.

Þrír leikarar fara með öll hlutverkin í leikritinu, sem ber nafnið Frá goðum til Guðs. Ólafur Guðmundsson leikur Kristján sem er "með víkinga á heilanum", Ólöf Sverrisdóttir er í hlutverki Þórunnar og Þorgeirs Ljósvetningagoða og Steinunn Ólafsdóttir leikur örlagadísina, Þorkel hák og Guðríði.

Hefndarskyldan og fyrirgefningin

Leikritið er samið í tilefni af 1000 ára afmæli kristni á Íslandi og er ætlað börnum á aldrinum 8-12 ára. Höfundar handritsins eru Ólöf Sverrisdóttir og leikhópurinn. Ólöf segir að hugmyndin hafi frá upphafi verið sú að fjalla um mismuninn á heiðni og kristni en ekki beinlínis um kristnitökuna sjálfa sögulega. Nafna hennar, Ólöf Ingólfsdóttir, sem sér um hreyfingar í leikritinu, auk þess að vera aðstoðarleikstjóri, bætir við að í raun megi segja að verkið fjalli um mismuninn á hugmyndaheimi og siðfræði heiðni og kristni.

Hugtök eins og hefndarskylda og fyrirgefning eru í brennidepli, enda eru höfundarnir á því að þar liggi kannski stærsti munurinn á heiðni og kristni. Ólafur, sem fer með hlutverk Kristjáns, bendir á að margt sé þó mjög óljóst í þeim efnum. "Við höfum í rauninni ekki úr svo miklu að moða af heimildum frá því fyrir kristnitöku. Það sem við notum fyrst og fremst eru Íslendingasögurnar, Eddurnar og ritgerðir eftir fræðimenn, en þeir hafa bara ekki við svo mikið að styðjast," segir hann. Ólöf Sverrisdóttir minnir líka á að Íslendingasögurnar séu ritaðar eftir kristnitöku, jafnvel þó að þær fjalli um atburði frá því fyrir og um kristnitöku, og því hætt við að þær séu litaðar af kristnum trúarskoðunum sagnaritaranna. Sú spurning verður áleitin hvort höfundar leikritsins falli ekki í sömu gryfjuna og sagnaritararnir, þar sem þeir séu aldir upp í kristinni siðfræði á ofanverðri tuttugustu öldinni. Ólöf Sverrisdóttir segir að reyndar hafi það farið svo að kristnin varð ofan á. "Við ætluðum samt ekki að láta það líta þannig út að kristnir menn væru miklu betri en þeir heiðnu." Ólafur viðurkennir fúslega að hann sé ekki æstur í að skipta á heiðnu þjóðfélagi og kristnu. "Harmleikurinn í Íslendingasögunum verður iðulega þegar maður lendir í því að valið er á milli þess að drepa bróður sinn eða föður konunnar sinnar. Þessar sögur fjalla mjög mikið um hvernig fólk kemst í ógöngur út af hefndarskyldunni," segir Ólöf Ingólfsdóttir. Hún segir boðskap leikritsins skýran: það eigi að fyrirgefa.

Sýnt "á vettvangi" næsta sumar

Þau benda líka á að verkið lýsi árekstri milli ólíkra hugmyndaheima. "Þetta er visst þroskaferðalag fyrir Kristján, sem kynnist þarna framandi hugmyndaheimi og þarf þar af leiðandi að skoða sinn eigin og hvað hann stendur fyrir," segir Ólöf Ingólfsdóttir.

Leikritið verður sem áður sagði frumsýnt í Tjarnarbíói í dag kl. 17. Það verður svo sýnt í skólum og kirkjum landsins í vetur og loks á Kristnitökuhátíð á Þingvöllum árið 2000. Á leikhópnum er að heyra að það verði spennandi að sýna leikritið á vettvangi kristnitökunnar, á Þingvöllum við Öxará.