J.S. Bach: Fúgulistin. Concerto Italiano u. stj. Rinaldos Alessandrinis. Opus 111, OPS 30-191. Upptaka: DDD, Frascati, Ítalíu, 6/1998. Útgáfuár: 1999. Lengd: 74:27. Verð (Japis): 1.999 kr.

"DIE KUNST der Fuge" - 20 fúgur og kanonar í d-moll um sama stef eða náskyld - kom fyrst út á prenti að Bach látnum 1750, var gefin út á ný árið eftir - og gleymdist síðan að heita má næstu tvær aldir. Hún er síðust í röð pólýfónískra meistaraverka á við Veltempraða hljómborðið I-II, Goldbergtilbrigðin og Tónafórnina (Musikalisches Opfer), en hefur ákveðna sérstöðu. Fyrst og fremst vegna ofurhnitmiðaðrar úrvinnslu á einfaldri 6 tóna hugmynd, sem útfærð er eftir öllum kúnstarinnar reglum - með viðsnúningi, speglun, lengingu eða styttingu, hrynbreytingu og annarri uppsafnaðri tækni raddfærsluvísinnar allt frá tímum Ockeghems og Josquins á 15. öld. Engar heimildir eru til um að Fúgulistin hafi nokkurn tíma verið flutt fyrr en Karl Straube, eftirmaður Bachs sem Tómasarkantor í Leipzig, endurvakti hana 1927, líkt og Mendelssohn Mattheusarpassíuna öld áður í sömu borg. Æ síðan hefur þetta einstæða verk verið mönnum ráðgáta.

Ekki þó hvað beinasta tilefni varðar, því líklegt þykir að verkið hafi átt að vera framlag Bachs til tónvísindafélags sem fyrrum nemandi hans Mizler stofnaði 1738 og taldi Telemann og Händel meðal meðlima. Var skylda hvers að leggja fram ritgerð eða tónverk einu sinni á ári. Né heldur þarf að geta í eyður um víðari tilgang verksins, sem líkja mætti við markmið Snorra með Eddu - að varðveita deyjandi listgrein handa komandi kynslóðum. Um miðja 18. öld áttu kontrapunktísk vinnubrögð undir högg að sækja, þegar "galant" fegurðarmat fór að varpa "lærðum" eldri stíl fyrir róða. Líkt og þegar sagnadansar ýttu dróttkvæðum út í kuldann fimm öldum fyrr.

Það sem staðið hefur í mönnum er hins vegar hvernig flytja bæri Fúgulistina - og jafnvel hvort yfirhöfuð væri ætlazt til þess. Hvort ætti að líta á hana sem tónverk frekar en fyrirmynd og kennsludæmi. Frá hendi Bachs fylgdi ekki aukatekið orð um hljóðfæraskipan, og rétt niðurröðun hverrar fúgu (í verkinu nefnd "Contrapunctus") hefur sömuleiðis vafizt fyrir tónsagnfræðingum, enda röðin í 1752-útgáfunni önnur en í þeirri fyrstu frá 1751. Ekki bætti heldur úr skák Bach-dýrkunararfleifð rómantískra tónfræðinga eins og Spitta, er nánast litu á Fúgulistina sem launhelgan dóm og vart á færi dauðlegra að skilja. Aðrir töldu verkið aðeins skraufþurra raddfærslufræði sem ætti ekkert skylt við lifandi tónlist.

Viðtökur síðustu 50 ára hafa sýnt fram á annað, því hljómplötuinnspilanir á Fúgulistinni eru komnar hátt í hundrað. Hitt er óljósara hver sé æskilegasta hljóðfæraáhöfnin. Á hljómplötum kennir flestra grasa frá því algengasta - einu hljómborði (sembal, klavíkorði, orgeli, píanói) - og upp í sinfóníuhljómsveit. Margir hafa farið svipaða millileið strengjakvartetts og/eða tréblásara og hér er gert, en möguleikar eru legíó, og skoðanir hérumbil jafnmargar um hvað hljómar bezt. Skv. eigin reynslu og að orgelútgáfu Helmuts Walcha meðtalinni virðist píanótúlkun Sokolovs (einnig á Opus 111) einna slitþolnust, þó að jafnvel blæbrigðaríkustu píanistar megni ekki til lengdar að skáka litafjölbreytni blandaðs strengja- og blásarahóps eins og hjá Concerto Italiano. Á móti vegur tiktúrukennd upprunatúlkun Ítalanna, sem mér þykir stundum skyggja á aðalatriðið - hina kontrapunktísku jafnvægisupplifun - með ýktri "messa di voce" vellandi á löngum tónum, tilgerðarlegu stakkatói o.fl., þó að yngri og hólpnari hlustendur kunni að vera á annarri skoðun.

E.t.v. felst skásta lausnin í að eiga margar útgáfur til skiptanna. Og þótt hljóma kunni sem helgispjöll, þá væri mér jafnvel ekki á móti skapi á góðri stund að geta "svissað" á svarrandi svuntuþeysisútfærslu a la Wendy Carlos, sem ég veit að vísu ekki hvort sé til. Eða þá á Swingle Singers, er sveifluðu Contrapunctus IX á "Jazz Sebastien Bach"-breiðskífunni frá 7. áratug af eftirminnilegri snilld. Höfundur Sveitakantötunnar hefði ábyggilega kunnað að meta hvort tveggja.

"STURM und Drang" - Stormur og þrá - hafa menn nefnt þá tónstefnu sem var næsti undanfari vínarháklassíkur og í raun forboði rómantíkur. Hún feyktist eins og hvítur stormsveipur yfir Þýzkaland á 8. áratug 18. aldar og tengist einkum verkum C.P.E. Bachs, Haydns og Mannheim-tónskáldanna frá sama tíma. Og einmitt í Mannheim steig fyrstu tónsköpunarspor sín nánast eini fulltrúi hennar á Norðurlöndum, Joseph Martin Kraus (1756-92), sem Svíar telja merkast tónskálda sinna milli Helmich Romans og Franz Berwalds, í krafti þess að hann dvaldi síðustu 14 æviárin í Stokkhólmi og komst til metorða við hirð Gústafs III konungs. Áður hafði hann m.a. numið lögfræði í Göttingen, þar sem hann gekk í hóp bókmenntakera og reyndi fyrir sér sem rithöfundur. Frétti hann þá af vænlegum framamöguleikum tónlistarmanna í Stokkhómi, settist þar að 1778 og hlaut stjórnandastöðu við Stokkhólmsóperuna og námsferðastyrk. Í kjölfarið heimsótti hann m.a. Gluck í Vín og Joseph Haydn í Esterháza, en sneri aftur til Stokkhólms 1781.

Alls náði Kraus að semja um 15 sinfóníur á skammri ævi. Fáar sem engar voru fluttar í Svíþjóð meðan hann lifði, og verk hans gleymdust síðan fram á þessa öld. Og þó að ópera hans Soliman II hafi áður komizt hér á blað (SD 7.2. 1998), voru sinfóníurnar mér til skamms tíma ókunnar. En satt að segja kom á óvart hvað mikið reyndist í þær spunnið. Hugvitið og orkan sem gustar af C.P.E. Bach-kenndu Es-dúr hljómkviðunni og hinni Haydn-leitu systur hennar í c-moll eru sérlega örvandi áheyrnar, og mætti hiklaust jafna þær við beztu samtímaverk áðurgetinna stórjöfra. C-dúr sinfónían stendur ekki alveg jafnsterk í samanburði, en Ólympíu-forleikurinn, saminn fyrir sýningu á harmleik Voltaires 1792 og eitt síðsta verka Kraus, er rakin snilld í hágöfgum anda Glucks, þrunginn smitandi drifkrafti C.P.E. og meitlaðri formbyggingu Haydns. Sá á reyndar að hafa sagt sænskum sendiherra um aðra sinfóníu eftir Kraus sem hann heyrði í Vín, að hún yrði talin meistaraverk á næstu öldum; "trúið mér, aðeins fáir geta samið þessu líkt!"

Haydn vissi hvað hann söng. Það gerir Petter Sundkvist greinilega líka. Hvorki skortir fjör, drama né höfga í svipmikilli túlkun hans og Sænsku kammersveitarinnar á þessum nýuppgötvuðu meistaraverkum.

Ríkarður Ö. Pálsson