Verslunin Nettó hækkar verð mest frá því verðkönnun var síðast gerð á Eyjafjarðarsvæðinu 14. september sl. eða um 2,32% en verðið þar er einnig lægst á þessu svæði.

Verslunin Nettó hækkar verð mest frá því verðkönnun var síðast gerð á Eyjafjarðarsvæðinu 14. september sl. eða um 2,32% en verðið þar er einnig lægst á þessu svæði. Þetta kemur fram í verðkönnun sem Neytendasamtökin gerðu í samvinnu við verkalýðsfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu hinn 22. október sl. í sjö matvöruverslunum.

Ágústa Ýr Þorbergsdóttir verkefnisstjóri segir að aðrar verslanir sem voru undir meðalverði séu Hagkaup og KEA í Hrísalundi. Hæsta meðalverð mældist í KEA Byggðavegi eða 106,5 miðað við meðalverðið 100.

KEA Sunnuhlíð lækkar verðið

KEA Sunnuhlíð lækkar verðið mest eða um 4,5% frá síðustu könnun en þá hafði verð í KEA Sunnuhlíð hækkað mest eða um 6,1% frá könnun sem gerð var í júní. KEA Byggðavegi lækkar sig lítillega og Hraðkaup stendur í stað. KEA Hrísalundi og Hagkaup hækka sig lítillega. KEA Nettó hækkar sig mest eða um 2,32%.

Ágústa bendir á að ef skoðaðar eru verðbreytingar í sex verslunum á Akureyri frá því í mars sl. lækkar verð í báðum verslunum Baugs en verðið hækkar í verslunum KEA.

Komið í veg fyrir misferli

Könnunin var gerð samtímis í öllum verslunum og ekki var tilkynnt um verðkönnun heldur höguðu verðtakendur sér eins og þeir væru í verslunarferð. Þegar búið var að renna vörunum í gegnum kassann var tilkynnt um verðkönnunina. Með þessum hætti segir Ágústa að vöruúrval verslana endurspeglist best á þeim tíma sem verðkönnunin er gerð og komið er í veg fyrir misferli.

Ekki var mælanlegur munur á Nettó í Reykjavík og á Akureyri þegar könnunin var framkvæmd hinn 22. október og sama má segja um Hagkaup á Akureyri og í Reykjavík svo og í Strax í Reykjavík og á Ólafsfirði.

Ágústa segir að lokum að um beinan verðsamanburð sé að ræða og ekki sé lagt mat á þjónustustig, sem er mismunandi.