"ÞETTA er niðurstaða sem kemur okkur öllum til góða," segir Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri Bergs - Hugins hf.

"ÞETTA er niðurstaða sem kemur okkur öllum til góða," segir Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri Bergs - Hugins hf. í Vestmanneyjum, um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um lækkun á útflutningsálagi á ferskan fisk, en meðal annars eykur það tekjur flotans í Eyjum um 75 milljónir á ári, að sögn Magnúsar. "Málið hefur farið illa í alla frá því umræða hófst um niðurfellingu og allir geta verið ánægðir með þessa farsælu lausn, sem við náðum."

Magnús segir að útvegsmenn hafi unnið að því árum saman að fá niðurfellt útflutningsálag á ferskan fisk. "Við töluðum alltaf fyrir mjög daufum eyrum þar til Þorsteinn Pálsson fékkst til að lækka gjaldið á ýsunni úr 20% í 15% 1996. Þá urðu menn gífurlega glaðir og héldu að framhald yrði á en þegar ekkert gerðist fékk ég lögfræðing til að fara í málið fyrir mig. Munnlegur málflutningur átti að vera fimmtudaginn 4. nóvember en þá óskaði ráðuneytið eftir því að við frestuðum honum. Ég neitaði því, sagði að hann færi fram á tilsettum tíma enda hefði málið dregist alltof lengi og ég vissi að það tæki eitt til þrjú ár í dómskerfinu. Þá hafði ráðherra samband við mig og í stuttu máli náðum við samkomulagi. Ég dró stefnuna til baka og tók á mig allan kostnað en í samkomulaginu felst að gjaldið á þorskinn fer úr 20% í 17%, í 15% 1. september 2000 og í 10% 1. september 2001. Gjaldið á ýsu, ufsa, karfa og grálúðu, sem var 15% verður 10% frá og með 1. september síðastliðinn.."

Magnús segir að samkomulagið hafi mikla þýðingu og meðal annars auki það tekjur Eyjaflotans um 75 milljónir á ári. "Hvað mitt fyrirtæki varðar er ljóst að hefði álagið á liðnu ári verið komið niður í það sem það er nú, 17% á þorsk og 10% á aðrar tegundir, hefði það þýtt sjö til átta milljóna króna tekjuauka miðað við einn bát, en þetta þýðir 75 milljónir í auknar tekjur á ári fyrir Eyjaflotann."