MIKIÐ fjölmenni fylgdist með hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðunni á fimmtudagskvöld í tilefni af því að þann dag, 4. nóvember, voru liðin 100 ár frá fæðingu skáldsins Jóhannesar úr Kötlum.

MIKIÐ fjölmenni fylgdist með hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðunni á fimmtudagskvöld í tilefni af því að þann dag, 4. nóvember, voru liðin 100 ár frá fæðingu skáldsins Jóhannesar úr Kötlum.

Svanur Jóhannesson, sonur skáldsins, afhenti Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni handrita- og skjalasafn föður síns til varðveislu, með dyggri aðstoð barnabarna Jóhannesar, sem báru í salinn alls níu skjalakassa og færðu Einari Sigurðssyni landsbókaverði.

Í skjalasafninu eru handrit ljóðabóka Jóhannesar, ýmis önnur ljóð og vísur hans, svo sem erfiljóð, afmæliskvæði og ljóðabréf til Hróðnýjar Einarsdóttur, konu skáldsins. Ennfremur handrit að greinum, ræðum og sögum, dagbækur frá ferðalögum, sendibréf, þýðingar og teikningar. Þá eru í safninu nótur laga sem tónskáld hafa skrifað við ljóð eftir Jóhannes, ritdómar, blaðaúrklippur og fleira. Landsbókavörður þakkaði höfðinglega gjöf og sagði skjalasafnið sérlega vel frá gengið og vandlega skráð.

Svanur Jóhannesson minntist sérstaklega tveggja fornvina föður síns, sem til stóð að tækju þátt í dagskránni en létust fyrr á þessu hausti, þeirra Ragnars Þorsteinssonar kennara og Lárusar H. Blöndals bókavarðar.

Heimsbyltingarsinni og ljóðbyltingarsinni

"Að elska jörðina og ljóðið" var yfirskrift erindis Eysteins Þorvaldssonar prófessors, þar sem hann sagði m.a. að í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum mætti lesa og rekja bókmenntasögu íslenskrar ljóðagerðar allt frá nýrómantík aldamótanna og til loka módernismatímabilsins um 1970. "Hann hóf skáldferil sinn sem nýrómantískt skáld, varð síðan helsta ljóðskáld hins félagslega raunsæis; gerði þar næst sína eigin formbyltingu og tók þátt í formbyltingu annarra með því að nýta sér ýmislegt úr fagurfræði módernismans. Hann var heimsbyltingarsinni á kreppuárunum fyrir heimsstyrjöldina síðari en ljóðbyltingarsinni eftir stríð. Og alla tíð vildi hann bylta kjörum alþýðunnar til betra vegar," sagði Eysteinn.

Baldvin Halldórsson leikari las ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum og Háskólakórinn söng lög við ljóð skáldsins undir stjórn Egils Gunnarssonar. Þá söng Jóhann Sigurðarson leikari Grýlukvæði, en geisladiskur með kvæðum Jóhannesar kemur út á næstunni.

Að síðustu talaði Þór Magnússon þjóðminjavörður um það sem Jóhannes skrifaði fyrir yngstu kynslóðina og þakkaði fyrir margar gleðistundir sem skáldið veitti honum barni með ljóðum sínum.

Einnig var opnuð sýning í anddyri Þjóðarbókhlöðu á bókum og handritum skáldsins, ljósmyndum og ýmsum munum úr eigu Jóhannesar. Má þar meðal annars sjá hátíðabúning sem Jóhannes klæddist á Alþingishátíðinni 1930.

Að dagskránni og sýningunni stóðu Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands, í samvinnu við Félag íslenskra fræða og Mál og menningu. Sýningin stendur til áramóta.