BRESKA blaðið The Guardian setti Sjálfstætt fólk efst á lista yfir bækur vikunnar (pick of the week) laugardaginn 30. október síðastliðinn. Bókin er að koma á markað þar í landi um þessar mundir hjá útgáfufyrirtækinu Harwill Press.

BRESKA blaðið The Guardian setti Sjálfstætt fólk efst á lista yfir bækur vikunnar (pick of the week) laugardaginn 30. október síðastliðinn.

Bókin er að koma á markað þar í landi um þessar mundir hjá útgáfufyrirtækinu Harwill Press. Í umsögn blaðsins segir að Sjálfstætt fólk sé í hópi þeirra verka sem bókmenntafólk setji sjálfkrafa á lista yfir "bækur aldarinnar" en sé einhvers staðar á milli skáldsagnanna Stríð og friður eftir Tolstoy og A Cold Comfort Farm eftir Stellu Gibbons. Í lokin segir í umsögn blaðsins að Sjálfstætt fólk sé í senn dularfull og mannleg bók.

Harvill Press er meðal virtustu bókaforlaga Bretlands og gefur út verk eftir marga af helstu höfundum samtímans. Má þar nefna José Saramago sem fékk bókmenntaverðlaun Nóbels í fyrra, Cees Nooteboom sem hlotið hefur bókmenntaverðlaun Evrópu og danska rithöfundinn Peter Høeg.

Útgáfa Harvill Press er samkvæmt samningi við Vöku-Helgafell, sem fer með útgáfurétt á verkum Halldórs Laxness. Fyrirtækið hefur einnig tryggt sér útgáfurétt á Brekkukotsannál sem út kemur á næsta ári. Harvill Press mun selja bækurnar í yfir 50 löndum en meðal þeirra eru Bretland, Ástralía, Indland, Nýja-Sjáland og Írland auk fjölmargra Afríkulanda og ríkja í Karíbahafi. Sjálfstætt fólk kom fyrst út í tveimur hlutum hér á landi 1934-1935. Hún var valin bók aldarinnar hér á landi fyrr á þessu ári.