Alvarlegust eru skilaboð borgarstjórans til þeirra, segir Helga Guðrún Jónasdóttir, sem vonuðu að hann myndi vinna að auknum framgangi jafnréttismála.

Að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, borgarstjórans í Reykjavík, skýrir einkum tvennt ófremdarástand í leikskólamálum borgarinnar. Í fréttaskýringaþætti Ríkissjónvarpsins að kvöldi 2. nóv. sl. sagði hún skýringarnar felast í annars vegar verulegri fjölgun dagvistarrýma á undanförnum árum og hins vegar efnahagslegu góðæri! Jafnframt telur hún að miðað við þessar forsendur hljóti foreldrar að sjá sóma sinn í því að bjarga málum tímabundið með vinnuframlögum á leikskólum barna sinna.

Sá borgarstjóri ekki aukinn rekstrarkostnað fyrir?

Eitt af stærstu kosningaloforðum Reykjavíkurlistans 1994 var að gera dagvistarmál að forgangsmáli. Í kosningunum 1998 töldu talsmenn listans að staðið hefði verið við gefin fyrirheit í þessum efnum. Dagvistarrýmum hafði fjölgað, biðlistar styst. Svo virðist sem mönnum hafi hins vegar yfirsést að styttri biðraðir kalla á hærri rekstrarkostnað. Það er ekki nóg að fjölga leikskólum. Það þarf einnig að reka þá. Fleiri skólar kalla á fjölgun starfsfólks og fleira starfsfólk leiðir af sér hærri launakostnað. Allt eru þetta fyrirsjáanlegar stærðir. Ingibjörg Sólrún er af þessum sökum ekki trúverðug þegar hún fórnar höndum í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins og segir himinháan launakostnað leikskólanna ekki mega hækka öllu meira.

Góðæri þegar borgarsjóður á í hlut

Efnahagslegt góðæri hefur skilað sér til sveitarfélaga í auknum tekjum. Þetta þykir borgarstjóra ekki óþægileg staðreynd þegar kemur að fréttaflutningi af batnandi fjárhagsstöðu borgarsjóðs. Þegar kemur að bágum launakjörum fóstra og aðstoðarfólks þeirra fær góðærið önnur formerki. Með hliðsjón af þessari framsetningu felst meginvandinn ekki í þenslu sem rekja má til stjórnvalda heldur heimagerðs rekstrarvanda borgaryfirvalda. Sá vandi felst fyrst og fremst í viðvarandi fyrirhyggjuleysi í tekjuöflun og óraunhæfum kostnaðaráætlunum. Það setur fjármálastjórn borgaryfirvalda í enn neyðarlegra ljós að vinnuframjög foreldra eru nefnd sem helsta úrræðið úr ógöngum leikskólanna.

Jafnrétti nærist ekki á fagurri fyrirhyggju

Alvarlegust eru þó skilaboð borgarstjórans til þeirra sem vonuðu að hann myndi vinna að auknum framgangi jafnréttismála. Dagvistarmál barna eru ekki einungis nátengd stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þau eru táknræn fyrir þann kynbundna launamun sem viðgengst; launamun sem reynslan sýnir okkur að eykst nær undantekningalaust á miklum hagvaxtarskeiðum. Uppeldis- og kennslustörf eru iðulega höfð til marks um starfsgreinar sem gjalda hefðbundins vanmats á vinnuframlagi kvenna. Þetta veit Ingibjörg Sólrún allra manna best. Engu að síður sér hún sóma sinn í því að gera veg þessarar gamalgrónu starfsstéttar kvenna sem minnstan.

Höfundur er varaþingmaður Reykjaneskjördæmis