Könnunin er gerð í þeim eina tilgangi, segir Þorgerður Ragnarsdóttir, að beita pólitískum áróðursaðferðum við markaðssetningu verslunarkeðjunnar.

RÍKISSTJÓRN Íslands hefur á undanförnum árum markað stefnu í vímuvörnum í landinu þar sem sérstaklega er lögð áhersla á að sporna við vímuefnaneyslu unglinga. Viðhorfskannanir sem gerðar hafa verið sýna að almenningi finnst áfengisneysla unglinga vera vandamál sem þarf að finna lausn á. Margir leggja hönd á plóginn í vímuvarnastarfi þrátt fyrir að stöðugt sé á brattann að sækja gegn ásókn þeirra sem vilja breytingar sem hafa þveröfug áhrif. Nýjasta dæmið er krafa aðstandenda einnar þekktustu verslunarkeðju landsins um að fá að selja áfengi í matvörubúðum.

Forvarnir

Allt vímuvarnastarf miðar að því að draga úr skaðsemi af neyslu vímuefna, þar með talið áfengis. Aukin neysla áfengis leiðir til aukinnar skaðsemi, s.s. fleiri bílslysa af völdum ölvaðra ökumanna, eyðilagðra ævidaga einstaklinga og fjölskyldna, fjárhagstjóns, líkamsmeiðinga og heilsubrests. Í forvarnastarfi er sérstök áhersla lögð á að hver einstaklingur fái notið æsku sinnar því að það eykur líkurnar á að hann geti fótað sig í mannlegu samfélagi á fullorðinsárum. Þekkt er að ótímabær neysla áfengis meðal barna og unglinga heftir þroska þeirra og getur rýrt framtíðarmöguleika þeirra. Vímuvarnir má flokka gróflega í tvennt. Annars vegar varnir sem miða að því að draga úr eftirspurn eftir vímuefnum og hins vegar aðgerðir sem hafa að markmiði að draga úr framboði slíks varnings. Til að draga úr eftirspurn er fyrst og fremst stuðst við fræðslu og ráðgjöf. Reynt er að hafa áhrif á lífsstíl og viðhorf almennings til neyslu vímuefna. Til varna sem draga úr framboði teljast lög og reglur sem takmarka aðgengi fólks að vörunni. Þessar varnir eru taldar sérstaklega mikilvægar til verndar viðkvæmum hópum í þjóðfélaginu, t.d. unglingum. Ef þættir sem draga eiga úr framboði eru veiktir mega fræðsla og ráðgjöf sín lítils.

Sölumennska

Kaupmanna fag er að græða á því að selja vöru og margir þeirra eru flinkir markaðsmenn. Hvort varan er góð eða slæm, holl eða óholl skiptir ekki höfuðmáli ef reikningarnir eru kaupmanninum í hag. Kaupmenn lýsa því gjarnan yfir að þeir vilji þjóna viðskiptavinum með því að hafa vandaðan varning á boðstólum. Ein þekktasta verslunarkeðja landsins heldur því nú fram að það sé mikilvægt fyrir viðskiptavini þeirra að fá að kaupa áfengi hjá þeim í staðinn fyrir að verða að eiga viðskipti við ÁTVR. Verslanir umræddrar verslunarkeðju eru víðast hvar aðeins steinsnar frá útsölum ÁTVR. Matvörubúðir verslunarkeðjunnar eru auk þess margar svo stórar að það getur tekið lengri tíma að finna rekka með sérvörum þar en að tölta yfir í áfengisútsöluna. Þjónustan við viðskiptavininn getur ekki verið kjarni málsins hjá aðstandendum verslunarkeðjunnar. Eitthvað annað hlýtur að búa að baki. Verði farið að óskum kaupmannanna og áfengissala leyfð í matvörubúðum er búið að hrifsa brott mikilvægt lagaákvæði til verndar börnum og unglingum í landinu. Ýmsir kaupmenn hafa verið margreyndir að því að selja börnum og unglingum tóbak. Við afgreiðslu í matvörubúðum eru gjarnan unglingar undir lögaldri. Hvers vegna ætti að treysta þessum kaupmönnum til að selja áfengi?

Fratkönnun

Aðstandendur umræddrar verslunarkeðju segjast vera að gera viðamikla könnun á viðhorfi almennings til áfengissölu í matvörubúðum. Könnunin fer fram á Netinu og fólk sem hefur aðgang að tölvu getur greitt atkvæði með eða á móti móti því að leyft verði að selja áfengi í matvörubúðum. Svona könnun er algjört frat og ekkert mark á henni takandi. Stærsti gallinn við slíkar kannanir er að ómögulegt er að vita hverjir svara og hve oft hver og einn svarar. Þær eru því bæði ónákvæmar og óvísindalegar. Líklegast er að þeir sem svara séu þeir sem hafa sterkustu skoðanirnar og vilja breyta núgildandi lögum. Niðurstaðan er þannig þekkt fyrirfram. Könnunin er einungis liður í áróðri til markaðssetningar verslunarkeðjunnar, enda er nafn hennar á allra vörum þessa dagana. Það á ekki að fara framhjá neinum hvað aðstandendum verslunarkeðjunnar finnst helst ábótavant í íslensku þjóðlífi. Niðurstöðunum verður svo væntanlega slegið upp til að slá ryki í augu fólks og láta það halda að mikill meirihluti þjóðarinnar sé hlynntur því að selja áfengi í matvörubúðum. Málstaðnum er fylgt eftir með auglýsingum sem kosta milljónir. Allir vita að auglýsingar geta selt hvað sem er.

Samanburður við útlönd

Í umræðunni um þetta mál er því haldið fram að sala áfengis í matvörubúðum sé leyfð út um allan heim, nema hér. Sá málflutningur á ekki við rök að styðjast. Nærtækast er að minna á að vín er ekki selt í matvörubúðum á Norðurlöndum nema í Danmörku. Þó að áfengiskaupaaldurinn miðist við 15 ár í Danmörku hafa börn, allt niður í 10 ára, fengið afgreitt áfengi í matvörubúðum í könnunum þar sem hefur verið látið reyna á það. Varla þykir það til eftirbreytni. Í fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna er vín aðeins selt í sérbúðum. Þar er það auk þess víða svo að fólk má ekki sjást utan dyra, ekki einu sinni á veröndinni heima hjá sér, með bjórdós í hendi. Víða í Asíu er áfengisneysla með öllu bönnuð. Þetta er vert að hafa í huga þegar því er haldið fram að hvergi séu eins stífar reglur um áfengi og hér.

Að lokum vil ég benda á að það hafa verið gerðar kannanir, sem mark er á takandi, á viðhorfi almennings til áfengisneyslu unglinga. Þær kannanir sýna að fólki finnst ástæða til að stemma stigu við unglingadrykkjunni. Þegar tekin er afstaða til þess hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvörubúðum má ekki missa sjónar á meginmarkmiðinu. Ef markmiðið er, með ríkisstjórnina í broddi fylkingar, að draga úr áfengisneyslu unglinga, þá er það ekki spor í rétta átt að leyfa sölu áfengis í matvörubúðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Áfengis- og vímuvarnaráðs.