Nærfellt liðið ár er eitt frá aldar þinnar fyrsta degi. Einatt hafði sál þín seitt sefa minn. Í austurvegi skín við himni háleit, björt hróðri vafin jökladrottning. Þar hjá Katla, þar hjá ört þitt nam krauma brjóst í lotn ing.

Nærfellt liðið ár er eitt

frá aldar þinnar fyrsta degi.

Einatt hafði sál þín seitt

sefa minn. Í austurvegi

skín við himni háleit, björt

hróðri vafin jökladrottning.

Þar hjá Katla, þar hjá ört

þitt nam krauma brjóst í lotn ing.

Undur lífs og eilíf rök

andann fýsti' að skilja' og læra...

Vorsins klið og vængjatök

veittist betr í ljóð að færa.

Bjargsins máttku, djúpu dul

og dagsins ljóma' á sólarhlaði,

fjallablómin fögur, gul

fangaðir þú á hvítu blaði.

Hlust við innstu hrífur nú

hlýr og dimmur andans rómur.

Rétt til getið - það ert þú,

en Þórðar frænda orgelhljómur

sætar enn mér syngur þó

og sálmar ykkar kóræfinga

í hreiðri því, sem Hanna bjó

þér, heiðursklerkur Eyfellinga.

Mannsins vinur hjartahreinn,

hásal Drottins gista máttu.

Tryggðamál þín tefji' ei neinn,

trúarbæn þá heyrast láttu

mælta fram fyrir mína þjóð:

Meðan anda nokkur lungu,

tali' hún, syngi og listaljóð

læri á þinnar móður tungu.

Höfundurinn er guðfræðingur og forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar. Ljóðið er ort í minningu séra Sigurðar Einarssonar í Holti, en hjá honum og Hönnu konu hans var höfundurinn í sveit á unga aldri. Þórður frændi er Þórður Tómasson safnvörður í Skógum, sem þá bjó í Vallnatúni.