MEÐ dóttur sína við hlið sér stóð svartur maður á götuhorni og var að reyna að ná í leigubíl. Einn ók hjá, síðan annar, síðan annar... Maðurinn var leikarinn Danny Glover og þykknaði honum í skapi með hverjum bíl sem virti hann að vettugi.

MEÐ dóttur sína við hlið sér stóð svartur maður á götuhorni og var að reyna að ná í leigubíl. Einn ók hjá, síðan annar, síðan annar... Maðurinn var leikarinn Danny Glover og þykknaði honum í skapi með hverjum bíl sem virti hann að vettugi. Á miðvikudag efndi hann til fundar með nefnd sem hefur yfirumsjón með leigubílum og lagði til að leigubílstjórar fengju betri fjölhyggjumenntun.

"Mælirinn fylltist þegar ég stóð á 116. stræti og fimm leigubílar óku framhjá mér," sagði Glover á blaðamannafundi. "Sú staðreynd að dóttir mín þarf að bíða þarna eftir leigubíl án nokkur árangurs þegar hún fer í skólann fer í skapið á mér... sú staðreynd að ég er þekktur, sú staðreynd að ég er sýnilegur, gerir mér kleift að vekja athygli á þessu." Lögfræðingur Glovers sagði að ætlunin væri að hitta fulltrúa nefndarinnar og ræða um að skylda nýja leigubíla til að taka svarta New York-búa upp í bílinn hjá sér og einnig um að aðstoða nefndina við gerð nýs þjálfunarmyndbands. Nýir leigubílstjórar gangast undir 80 klukkustunda þjálfun og einn dagur er þegar helgaður "viðkvæmum málefnum" þar sem rætt er um fordóma, kynþátt bílstjóranna sjálfra og viðurlög við því að neita að stoppa fyrir farþegum.

Glover, sem er 52 ára, er kunnastur fyrir hasarmyndirnar Banvænt vopn eða "Lethal Weapon". Hann býr í San Francisco en er tíður gestur í New York. Hann er ekki fyrstur blökkumanna til að kvarta yfir því að vera útilokaður frá leigubílum. Árið 1994 lýsti fyrrverandi borgarstjórinn David Dinkins því þegar leigubíll ók framhjá honum við Park Avenue aðeins til að stoppa í grenndinni fyrir hvítum farþega. "Það kom fyrir mig þegar ég var borgarstjóri og það hefur komið fyrir síðan," sagði Dinkins í símaviðtali á miðvikudag.