STEFJA ehf. mun innan tíðar setja á markað hér á landi viðvörunar- og fjarstjórnunarkerfi sem nýtir GSM -kerfið. Kerfið nefnist Haukka 3000 og er sérstaklega ætlað sumarhúsa- og bátaeigendum. Kerfið getur t.d.

STEFJA ehf. mun innan tíðar setja á markað hér á landi viðvörunar- og fjarstjórnunarkerfi sem nýtir GSM -kerfið. Kerfið nefnist Haukka 3000 og er sérstaklega ætlað sumarhúsa- og bátaeigendum. Kerfið getur t.d. uppgötvað innbrot og gert viðvart með SMS-skilaboðum um GSM-síma.

Búnaðurinn er frá norska fyrirtækinu PKD Telecom AS og að sögn Ágústar Einarssonar, framkvæmdastjóra Stefju, er hann einfaldur í notkun. "Það sem er byltingarkennt er að hægt er að nota GSM-síma við alla stjórnun kerfisins," segir Ágúst en leggur áherslu á að notkun hefðbundins símkerfis sé einnig möguleg. "Þetta er einkum mikil framför fyrir sumarhúsa- og bátaeigendur sem ekki hafa haft tækifæri til símtengingar viðvörunarkerfa fram að þessu," segir Ágúst. Auk viðvörunarkerfis inniheldur búnaðurinn fjarstjórnarkerfi þar sem mögulegt er að hringja í kerfið úr GSM-síma og láta það t.d. hækka hitann í sumarbústaðnum. Einnig verður boðið upp á stýringu og eftirlit fyrir notendur í gegnum Netið.

Viðvörun innan tíu sekúndna

"Staðalpakkinn inniheldur grunntæki sem þróað hefur verið af PKD og byggist á GSM-síma frá Ericsson og tveimur innrauðum hreyfiskynjurum," segir Ágúst en verðið á tækinu er um 60 þúsund krónur. "Búnaðurinn lætur eigandann vita ef t.d. er brotist inn í sumarbústaðinn og sendir honum SMS-skilaboð innan tíu sekúndna. Það veltur síðan á eigandanum hvort hann fer sjálfur af stað eða lætur nágranna, öryggisvörslufyrirtæki eða lögreglu vita," segir Ágúst. Viðræður standa nú yfir á milli Stefju og Landssímans og Securitas um að taka að sér sölu og öryggisþjónustu tengda vörunni.

Kerfið í þróun hjá Stefju

Kerfið er þráðlaust og hægt er að tengja hvers kyns skynjara og rofa við búnaðinn, að sögn Ágústar. T.d. raka-, hita- og reykskynjara þar sem boð berast um GSM-kerfið ef einhverjar breytingar verða. Auk þess er hægt að tengja hitarofa við kerfið og mögulegt að stilla hitastig, t.d. í sumarbústaðnum, í gegnum GSM-símann. "Með viðbótareiningu getur eigandinn til dæmis kveikt ljósin eða kveikt á sjónvarpinu með því að hringja í tækið og þannig fælt þjófa frá húsinu."

Ágúst segir kerfið jafnframt í þróun hjá Stefju. "Við höfum verið að vinna töluvert með WAP-tæknina þar sem GSM-símar tengjast Netinu og Haukka-búnaðurinn getur orðið innlegg í það."

Að sögn Ágústar eru 80-85% af sumarbústöðum á landinu innan GSM-kerfisins en alls eru um tíu þúsund sumarbústaðir á Íslandi. "Það hefur verið töluvert um innbrot í sumarbústaði á Íslandi og við hjá Stefju teljum þörf fyrir viðvörunarkerfi af þessu tagi til að stemma stigu við því," segir Ágúst.