[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland var hinni írskættuðu Moy Keightley innblástur, hliðstætt því sem fjallið St. Victoire var Cézanne og Giverny-garðurinn var Monet. Hún undi sér best í víðfeðmi öræfanna, en því miður er þessi listakona fallin frá fyrir aldur fram.
MOY Keightley var orðin þroskuð listakona og merkur kennari (kenndi m.a. við Central St. Martin's School of Art í London, einn best þekkta listaskólann í Englandi) er hún kom til Íslands í fyrsta sinn árið 1977. Má segja að uppfrá því ætti landið hug hennar allan. Hún undi sér best í víðfeðmi öræfanna og þótt fædd væri og uppalin í stórborg, vílaði hún ekki fyrir sér óþægindin og erfiðið sem því gátu fylgt, einkum í misjöfnum veðrum. Raunar voru það einmitt hinar snöggu veðrabreytingar, með tilheyrandi ljósbrigðum og stórfenglegu skýjafari sem höfðuðu mest til henar og urðu að hennar sérfagi.

Hún þróaði tækni sem var mjög sérstæð og persónuleg, var líkast því að hún skapaði fagurgerðan vef úr landslaginu, oft settan perlum og eðalsteinum. Þótt hún ynni nær eingöngu í vatnslitum og í fremur smáu formi, voru það ótrúleg áhrif sem hún töfraði fram. Sjálf á ég eftir hana uppáhaldsmynd sem, þótt óhlutlæg sé, gefur til kynna að tíminn sé nokkuð löngu eftir sólarlag síðla hausts, það er horft til Íshafsins - dumbrauðir og ísbláir litirnir senda kaldan hroll niður bakið en ylja um leið hjartarætur útlaganum, barni norðursins, sem sest hefur að á erlendri grund en aldrei alveg fest rætur.

Árið 1995 tók Moy þátt í alþjóðlegri samkeppni, sem beint var að starfandi listamönnum og nefnd var "Listamenn á ferð". Átti efnið að vera sem næst ferðasaga í myndum. Hún sendi inn verk, sem samsett var úr svipmyndum frá Íslandi, nefnt "Íslandsferð - 30 ferðaþættir", hver og ein lítil gersemi þrungin kyngikrafti íslenskrar náttúru. Hún bar sigur úr býtum, hlaut að verðlaunum þriggja vikna ferð og uppihald hvar sem hún vildi í heiminum. Varð Ástralía fyrir valinu og naut hún þeirrar ferðar í ríkum mæli. Eigi að síður sneri hún sér strax að efninu þegar heim kom: að vinna úr efniviði þeim sem hún hafði safnað að sér á Íslandi um sumarið.

Moy var hógvær að eðlisfari og lagði ekki sjálfshól í vana sinn, en í þetta sinn sagði hún mér sigri hrósandi: "Ég vann þetta fyrir Ísland" - en eftir svolitla umhugsun bætti hún við "en Ísland vann það líka fyrir mig".

Moy kemur ekki til Íslands í ár. Þremur vikum eftir að hún kom heim úr Íslandsferðinni í fyrra fékk hún heilablóðfall og dó skyndilega. Það sorglega er að hún hafði einmitt þá um sumarið látið af kennarastörfum og hugðist beina öllum sínum kröftum að listsköpuninni. Hún hafði sýnt reglulega Íslandsverk sín í London, t.d. í New Grafton Gallery í Bond Street og Barbican Centre. Mun sú landkynning hafa verið landinu notadrjúg og oft heyrði ég sýningargesti láta í ljós undrun og hrifningu bæði yfir fegurð myndefnisins en einnig frábærri tækni og túlkun listakonunnar.

Mér er kunnugt um að til er talsvert af nýjum og áður ósýndum verkum eftir Moy og er á döfinni að setja upp sýningu í London á þeim í vetur. Moy hélt aðeins tvær sýningar hér á landi (aðra í Listvinahúsinu og hina á Akureyri í kringum 1980) og seldust verk hennar mjög vel enda kæmi mér ekki á óvart þótt þau yrðu með tímanum vel metnir söfnunargripir. Færi því vel á ef framkvæmanlegt væri að flytja þessa sýningu hingað þegar henni lýkur í London. Ekkert hefði glatt meir þessa írsku töfrakonu með íslenska hjartað.

Höfundurinn býr í Englandi.