Við sjáum ekki rökin fyrir því, segir Finnur Árnason, að ríkiseinkasala á víni sé heppilegasti sölumátinn.

MIKLAR og örar breytingar eiga sér stað í neysluvenjum þjóðarinnar og stafar það m.a. af breyttum lifnaðarháttum, auknu frjálsræði og vaxandi samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Viðskipta- og verslunarhættir breytast einnig ört og framundan eru enn hraðari breytingar á því sviði. Við fylgjumst öll með umræðum um verslun á Internetinu en nær okkur í tíma er sú breyting að þjónusta af ýmsu tagi, svo sem banka- og póstþjónusta og annað það sem tilheyrir daglegu lífi, færist inn í matvöruverslanir og verslunarkjarna nútímans. Endurskipulögð verslun Nýkaups í Kringlunni ber svipmót þessara nýju hugmynda og er í raun margar búðir og þjónustufyrirtæki í einni heild. Okkur finnst þó að vínbúðina vanti til þess að þetta nýja skipulag hafi upp á allt það að bjóða sem fjölmargir telja að tilheyri máltíð við hátíðleg tækifæri. Og við sjáum ekki rökin fyrir því að ríkiseinkasala á víni sé heppilegasti sölumátinn um aldur og ævi í verslunarheimi sem breytist og þróast eins hratt og raun ber vitni.

Ekkert áfengi í uppstillingunni

Við hjá Nýkaupi ákváðum á dögunum að vekja umræðu um stefnu í áfengismálum með því að afhjúpa á táknrænan hátt vínbúð í matvöruverslun okkar í Kringlunni. Með því var ætlunin að nýta tækifærið, þegar róttækar breytingar voru hvort eð er á döfinni, til þess að sýna hvernig vínbúð yrði stillt upp, ef leyfi fengist til. Við vildum með þessum hætti efna til víðtækrar könnunar á viðhorfum viðskiptavina og almennings til þessa máls. Ástæða er til þess að taka fram að ekkert áfengt vín eða bjór var í uppstillingunni. Fullyrðingar sem fram hafa komið um lögbrot af hálfu Nýkaups í þessu sambandi eiga því ekki við rök að styðjast. Þessari sýningu er nú lokið og stekur önnur sérbúð við af vínbúðinni sem aldrei var opnuð. Þetta tiltæki hefur vakið athygli og umræður, enda er hér á ferðinni mál sem alla jafna kallar á sterk viðbrögð, bæði með og á móti. Því miður er það svo að menn sjá oftast aðeins Svörtulendur eða Ljósaklett í umræðunni og ekkert þar á milli.

Við teljum það heyra sögunni til að ríkið sjái um smásölu, hverju nafni sem hún nefnist. Verslun er hér á því stigi að kaupmönnum og verslunarfólki er vel treystandi til þess að selja alla vöru sem á annað borð er leyfilegt að selja í samræmi við þau skilyrði og reglur sem settar eru af hálfu stjórnvalda á hverjum tíma. Vitað er að meirihluti almennings er hlynntur því að sala á léttvíni og bjór verði leyfð í matvöruverslunum, enda verði slík sala háð ströngum skilyrðum og eftirliti. Við viljum gjarnan svara kröfum viðskiptavina okkar en er það ekki heimilt.

Aðgengi hefur stóraukist

Ein af röksemdum þeirra sem andsnúnir eru afnámi ríkiseinokunar á áfengissölu er sú að fjölgun útsölustaða og auðveldara aðgengi leiði til aukinnar heildarneyslu á áfengi. Ekki er ástæða til þess að vefengja slíkar fullyrðingar en hin hliðin á málinu er samsetning neyslunnar og form hennar, sem skiptir ekki síður máli. Í þessu sambandi er lærdómsríkt að líta til þess sem gerst hefur eftir að sala á áfengum bjór var leyfð árið 1989. Síðan þá hefur sala á sterku áfengi dregist saman en neysla á léttvíni og bjór aukist. Þessi tilhneiging myndi sennilega enn styrkjast ef léttar veigar yrðu til sölu í sérstökum vínbúðum í matvöruverslunum. Einokun íslenska ríkisins á áfengissmásölunni er í takt við aðhaldssama áfengis- og heilbrigðisstefnu flestra Norðurlanda. Það má hins vegar deila um það hvort þessi stefna nái tilgangi sínum og sé sjálfri sér samkvæm. Misnotkun áfengis virðist t.d. vera algengara og alvarlegra vandamál á Norðurlöndum en víðast hvar annarsstaðar í Vestur- og Suður-Evrópu. Áfengisútsölum ÁTVR hefur fjölgað úr 13 í 26 á rúmum áratug, sérstaklega útsölustöðum á landsbyggðinni, um leið og sprenging hefur orðið í fjölda vínveitingastaða um allt land. Samfara þessu lætur nærri að allir Íslendingar fari nú einu sinni á ári til lengri eða skemmri dvalar í löndum þar sem vín er selt með matvöru. Aðgengi landsmanna að þessum veigum er því mikið en æ fleirum þykir óþægilegt að þurfa að gera sér sérstakar ferðir til þess að kaupa vínflösku með matnum, og koma þá hugsanlega að luktum dyrum

ÁTVR

Margir fleiri ókostir fylgja ríkiseinokun á smásölu með vín en rúmsins vegna verða þeir ekki tíundaðir hér sérstaklega. Það er hins vegar misskilningur að halda að kaupmenn verði síðri innheimtumenn ríkissjóðs en ÁTVR. Það kostar verulegt fé að halda einkasölunni úti og kaupmenn mundu því ekki vera síðri við að skila áfengisskattinum í ríkissjóð en ÁTVR.

Áfengisstefna er málamiðlun

Engum dylst að óhófleg áfengisdrykkja hefur slæm áhrif á einstaklinga, fjölskyldulíf og menningarbrag þjóðar. Kostnaður samfélagsins vegna misnotkunar áfengis er verulegur. Meðal annars af þessum ástæðum fengum við þá félaga Boga og Örvar til þess að minna á það með nærveru sinni í auglýsingum að það eru dökkar hliðar á vínneyslu. Vegna þeirrar þverstæðu sem felst í því að áfengi er löglegt vímuefni þó að það reynist mörgum hættulegt, er nauðsynlegt að stjórnvöld haldi úti markvissri áfengisstefnu sem sé í einhverju samræmi við þann veruleika sem landsmenn lifa og hrærast í. Slík stefna hlýtur ávallt að vera málamiðlun milli margra ólíkra sjónarmiða. Við teljum það til að mynda vera í anda hófsemi og aðgátar að selja ekki nema léttvín og bjór í matvöruverslunum. Sterkir drykkir eiga að mínu viti frekar heima í sérverslunum með áfengi, e.t.v. á vegum sérstakra vínkaupmanna.

Það er Alþingi Íslendinga sem mótar stefnuna í áfengismálum í samræmi við upplýsta umræðu og viðhorf almennings. Það er von okkar hjá Nýkaupi að sýning okkar á hugsanlegu fyrirkomulagi á sölu víns í matvöruverslun og víðtæk skoðanakönnun verði til þess að vekja umræðu sem leiði til skynsamlegra og yfirvegaðra ákvarðana í fyllingu tímans.

Höfundur er framkvæmdastjóri Nýkaups.