AARON McKinney, 22 ára gamall maður, var dæmdur í fyrradag í lífstíðarfangelsi fyrir að drepa samkynhneigðan námsmann, Matthew Shepard. Var honum hlíft við dauðarefsingu en hefur enga möguleika á náðun.

AARON McKinney, 22 ára gamall maður, var dæmdur í fyrradag í lífstíðarfangelsi fyrir að drepa samkynhneigðan námsmann, Matthew Shepard. Var honum hlíft við dauðarefsingu en hefur enga möguleika á náðun.

Saksóknarar kröfðust þess, að McKinney yrði dæmdur til dauða en kviðdómurinn taldi ekki sannað, að hann hefði ávallt ætlað sér að myrða Shepard. Þá samþykkti fjölskylda Shepards, að McKinney fengi að biðja sér griða og það gerði hann með því að lýsa iðrun sinni og biðja aðstandendur Shepards afsökunar.

McKinney fékk tvöfaldan lífstíðardóm, annan fyrir morðið og hinn fyrir mannrán.

McKinney og félagi hans, Russell Henderson, lokkuðu Shepard út af veitingahúsi í bænum Laramie, börðu hann með byssu og skildu hann eftir bundinn við grindverk fyrir utan bæinn. Fannst hann næstum sólarhring síðar og lést af sárum sínum eftir fimm daga, 12. október 1998.

Verjandi McKinneys sagði, að skjólstæðingur sinn væri fremur auðnuleysingi en kaldrifjaður morðingi. Að hans sögn hefði hann misst stjórn á sér er Shepard hefði leitað á hann og hefði það vakið upp með honum minningar um æsku sína er hann sætti kynferðislegu ofbeldi.

Henderson, félagi McKinneys, fékk sama dóm og hann í apríl sl.