EVRÓPSKA gæðavikan er haldin aðra vikuna í nóvember ár hvert og að þessu sinni ber hún yfirskriftina "Best Practices for Success", eða "Aðferðir til árangurs" í íslenskri þýðingu.

EVRÓPSKA gæðavikan er haldin aðra vikuna í nóvember ár hvert og að þessu sinni ber hún yfirskriftina "Best Practices for Success", eða "Aðferðir til árangurs" í íslenskri þýðingu. Hér á landi er það Gæðastjórnunarfélag Íslands, GSFÍ, sem hefur veg og vanda af Gæðavikunni.

"Að þessu sinni starfar Gæðastjórnunarfélagið eftir nýrri framtíðarsýn," segir Haraldur Á. Hjaltason, formaður félagsins. "Ekki er einungis fjallað um gæðamál heldur skilgreinum við okkur sem fagfélag á sviði stjórnunar og þeir viðburðir, sem við stöndum fyrir í næstu viku, endurspegla það.

Við munum til dæmis fjalla um hvaða áhrif hlutabréfamarkaður hefur á stjórnun fyrirtækja en það er mál sem hefur verið ofarlega á baugi. Þar er m.a. rætt um hvernig á að reka þessi fyrirtæki og hver staða stjórnenda er í þeim. Þetta finnst okkur vera mjög spennandi efni en það tengist á engan hátt gamaldags skilgreiningu á gæðastjórnun," segir Haraldur.

Fjölmargir þátttakendur í íslensku atvinnulífi munu halda erindi á Gæðavikunni auk tveggja erlendra fyrirlesara, sem Haraldur segir mjög spennandi. Annar þeirra er Magnus Ruberg sem fjallar um umhverfisstjórnun. Að sögn Haraldar snýst sú umfjöllun þó að minnstu leyti um náttúruvernd. "Hins vegar er skoðaður raunverulegur ávinningur af umhverfisstjórnun og þá er átt við markaðslegan ávinning jafnt sem fjárhagslegan. Okkur finnst þetta mál sem þarf að koma á framfæri því umhverfismál snúast ekki eingöngu um að berjast á móti virkjunum eða fjalla um skógrækt," segir hann. Seinni erlendi fyrirlesarinn er Robert Allen-Turl, sem starfar hjá TNT í Bretlandi. Hann kemur til með að fjalla um hvernig fyrirtæki hans vann til Evrópsku gæðaverðlaunanna á síðasta ári og hvaða áhrif þær aðferðir hafa haft á rekstur fyrirtækisins.

"Erindi hans verður flutt á sérstökum hátíðarfundi í Íslensku óperunni á föstudaginn en þar verða íslensku gæðaverðlaunin veitt," segir Haraldur að lokum.