Elsku afi. Ertu þá farinn og loksins frjáls. Frjáls frá súrefninu og það aftrar þér ekki lengur. Nú loksins geturðu gert eins og þig langar til. Eins og Margrét, litla systir mín, sagði að nú getur þú verið hjá kindunum sem þú gast ekki síðustu ár vegna veikinda þinna. Það er á svona stundum sem maður hugsar um allt það góða og skemmtilega sem við gerðum saman þegar ég var yngri. Ef ég ætti að taka það allt væri það sjálfsagt efni í heila bók en nokkrar minningar komu upp í hugann.

Maður mun aldrei gleyma þér og margar minningar úr æskunni í sveitinni eru tengdar þér. Ég man alltaf þegar þú gafst mér veiðistöngina þína. Þú varst búinn að fá nýja og stærri stöng og þess vegna gafstu mér þá gömlu. Mér fannst mér allir vegir færir og allir fiskarnir í ánni máttu fara að vara sig því ég hafði fengið gömlu stöngina hans afa að gjöf.

Einnig sagðirðu mér oft sögur af miklum veiðiskap frá fyrri árum þegar þið pabbi veidduð mikið þó svo að minna höfum við fengið nú á síðari árum.

Ljóslifandi eru einnig fyrir mér minningarnar þegar þú varst oftar en ekki á dráttarvélinni og ég fékk að standa hjá þér. Mér fannst þetta alveg rosalega gaman og ekki var það síðra þegar ég fékk að stýra með þér. Þú varst líka fyrsti kennarinn minn á dráttarvélarnar og fannst mér það rosalega gaman að geta loksins gert eins og þú.

Fleiri útiverk eru mjög svo tengd þér í minningunni. Fjárhúsin munu alltaf eiga stóran sess í huga mínum. Ég man það svo vel að þú reifst heyið í sundur og pabbi gaf á garðann. Svo þegar ég varð nógu gamall til að geta hjálpað til við að gefa var sú ábending frá þér, að ekki mætti slæða á hausana á kindunum sem rótgróin í huga mér og ég reyndi eftir bestu getu að fara eftir henni þó svo að það gengi ekki alltaf sem skyldi í byrjun.

Ljóslifandi er það mér í minningunni þegar þú varst að reyna að kenna mér að slá með orfi og ljá. Þú varst alger snillingur með ljáinn en það gekk frekar brösótt að reyna að kenna mér.

Þær voru ekki síðri stundirnar sem við áttum saman inni. Ég man alltaf þegar við vorum að tefla. Ég var byrjandi og þú varst alltaf að kenna mér hvernig væri hægt að verjast sókn taflmannanna. Það gekk svo sem ekki vel í fyrstu því þú vannst oftast og í þau skipti sem ég vann held ég að þú hafir alveg getað unnið en bara viljað láta mig vinna. Svo ekki sé talað um kasínuna sem við spiluðum. Það voru sérstakar stundir að liggja inni á svefnbekk hjá þér og spila við þig. Einnig þótti okkur systkinunum á unga aldri gaman að leggjast inn til ykkar ömmu á svefnbekkina á kvöldin og sofna þar. En pabbi bar okkur síðan yfir í okkar rúm þegar leið á kvöldið.

Óheppni mín í íþróttum og þá aðallega fótbolta var mikil um tíma. Og alltaf baðst þú mig að hætta að spila þegar ég kom meiddur heim. Ég ætti ekki að vera að þessu. Þú sagðir að ég hefði ekkert annað en beinbrot og önnur meiðsli upp úr því og það kom svo á daginn að þetta hélt áfram. Hef ég síðan farið að þínum ráðum, hætt í fótboltanum og verið heill maður upp frá því.

Til marks um hve rólegur og yfirvegaður þú varst var það hrein unun að fylgjast með ykkur pabba horfa á handboltaleik. Hvort sem það var KA eða íslenska landsliðið og allt á suðupunkti þá sátuð þið sallarólegir og létuð ekki læti okkar hinna í fjölskyldunni yfir leiknum hafa ein einustu áhrif á ykkur.

Sem dæmi um góðvild þína var að Skódinn þinn var alltaf til reiðu þegar ég þurfti að fá hann lánaðan, svo og rakvélin þín þegar mér fór að vaxa smáskegg.

Elsku afi, þegar frá líður koma fallegar minningar í stað sársaukans og það sem gerði mann sorgmæddan er í raun allar fallegu minningarnar. Það að vita að nú sértu frjáls og að þér líði vel er ljós í myrkrinu.