Elsku afi. Það er með eftirsjá, en þó mikilli ánægju og þakklæti sem ég kveð þig í dag. Þú varst áreiðanlegur og sterkur persónuleiki og markaðir djúp spor í mín uppeldisár. Ég bar ómælda virðingu fyrir þér og ömmu og ég vissi að það sem þú mæltir voru lög. Þó að ég hafi líklega ekki talist sérstaklega hlýðið barn datt mér ekki annað í hug en að hlýða þér í einu og öllu. Ég minnist þess þó aldrei að þú hafir hastað á mig.

Þær voru ófáar heimsóknirnar til þín niður á bryggju eða heim til ykkar ömmu sem urðu stór hluti af mínu daglega lífi langt fram eftir aldri. Ég naut þeirra sérstöku forréttinda að fá að fara með þér oft á sjóinn. Það var alltaf viss tilhlökkun og spenningur þegar við fórum saman út á fjörð að vitja um silungs- og kolanetin, það var alltaf eitthvað að hafa, því þú varst með eindæmum fiskinn.

Með þér fer stór hluti af því sérstaka og dugmikla samfélagi sem varð til við Hafnargötuna og Laugaveginn. Ég sem barn og síðan unglingur heillaðist af þessari sérstöku veröld sem sjórinn og skúrarnir á bryggjunni mótuðu. Ég heyrði snemma orðatiltækin "þeir vakna á bökkunum", "amma" með sérstakri áherslu, eða þá "það vild'ég bara að þeir dræp'ann" og fleiri ógleymanleg orðatiltæki sem þið létuð flakka á milli ykkar félaganna. Þú varst mikill handverksmaður og nýttir það vel við smíði á húsum og fjöldann allan af bátum sem voru stolt þitt.

Þær eru ófáar vísurnar, sem eftir þig liggja, sem við höldum hátt á lofti því þær minna okkur á þessa sérstöku tíma. Það er ekki hægt að minnast afa án þess að nefna hversu stríðinn hann var, þver og með ríkulegt skopskyn. Allir þessir persónutöfrar þínir blönduðust svo ógleymanlega saman. Þegar við skírðum strákana okkar Tandra Má og Darra Stein varstu ekki sáttur við þessi óvenjulegu nöfn. Iðulega þegar ég kom til þín sagðir þú: "Konni minn, þau eru ekki vel góð nöfnin á drengjunum þínum." Þú leystir þetta á þinn sérstaka máta með því að kalla þá ætíð Má og Sakkarías. Það var ekki annað hægt en að láta sér þykja vænt um það þegar þú kallaðir á þá með þessum nöfnum, því það gerðir þú á þinn blíða máta og með sérstakan glampa í augum.

Þið voruð svo einstaklega heppin að eiga hvort annað, þú og amma, því hjónaband ykkar var einstakt og vinskapurinn á milli ykkar ógleymanlegur. Það er ekki hægt að tala um elsku afa án þess að nefna ömmu í sama orðinu, svo samstiga voruð þið.

Þótt oft hafi líklega verið þröngt í búinu á Hafnargötunni varð maður þess aldrei var því þú einsettir þér að alltaf skyldi vera til nóg að bíta og brenna. Þú lést okkur barnabörnin njóta þess ríkulega þegar þú aflaðir vel og leyfðir okkur ávallt að gleðjast með ykkur ömmu þegar þannig áraði.

Amma sagði alltaf að hún mundi fara á undan "gamlingjanum " eins og hún kallaði þig alltaf en að þú kæmir til hennar stuttu á eftir. Þannig fór það líka. Þið voruð bæði södd lífdaga. Búin að skila ykkar og sátt við að kveðja.

Elsku afi, nú ertu kominn til Guðmundar þíns og ömmu. Við kveðjum þig full þakklætis og biðjum góðan Guð að geyma þig.

Þinn

Konráð Sigurðsson (Konni)