Nú hefur Konni afi minn kvatt okkur og langar mig til að minnast hans. Afi á Sigló eins og ég kallaði hann hefði orðið 95 ára nú í desember. Á mínum bernskuárum dvaldi ég á sumrin hjá honum og ömmu á Hafnargötunni á Siglufirði og var það ánægjulegasti tími hvers sumars, enda var ávallt tekið vel á móti gestum er bar þar að garði. Afa og ömmu kom einstaklega vel saman og þau sýndu hvort öðru mikla væntumþykju og virðingu.

Sjómennskan var stór þáttur í lífi afa. Eins og sönnum sjómanni sæmir var hann árrisull og fór alltaf á fætur kl. 5 á morgnana og þótti þá nóg um þegar hann var í landi og mætti í morgunkaffið kl. 9 og sá að borgardrengurinn var enn sofandi. Hann átti þá til að toga sængina af mér og fá mig með þeim hætti á fætur. Fátt var meira gaman en að fara með afa út á fjörð á aflafleyinu Óðni til að veiða á handfæri þorsk og ýsu eða vitja kola- eða silungsneta. Í minningunni er eins og alltaf hafi verið góð veiði og fengu margir í soðið af aflanum. En sjálfum fannst mér mun ánægjulegra að slægja eða veiða fisk heldur en að hafa hann í matinn.

Mörgum stundum vörðum við afi saman niðri í skúr eða á bryggjunni. Þar sem unnið var við netin og verkun fisks. Stundum vorum við komnir í bryggjusmíði og aðrar lagfæringar. Við þá vinnu áttum við margar góðar stundir í afslöppuðu umhverfi Siglufjarðar. Afi var afar duglegur og mjög handlaginn og hann smíðaði að mestu sjálfur hús fjölskyldunnar á Hafnargötunni þar sem stór hluti ættmenna hefur dvalið. Auk þess smíðaði hann báta sína bæði Óðin og litlu julluna. Smám saman vék hans tilvera fyrir nýjum tímum og nú eru bátarnir og bryggjan við skúrinn horfin. Þótt afi tæki aldrei formlegt sumarfrí gaf hann sér alltaf tíma til að heimsækja fornar slóðir að Tjörnum. Var þá gjarnan reynt að fara til berja í leiðinni. Ógleymanlegar eru allar þær ánægjulegu samverustundir sem við afi áttum. Stutt var í góðlátlega stríðni hans og oft fékk ég að heyra nokkrar vel valdar vísur.

Afi var einstaklega hjálpsamur og barngóður. Hann fylgdist af áhuga og stolti með börnum sínum og öðrum niðjum, en í dag á hann fjölmörg barnabörn og barnabarnabörn. Öll eigum við eftir að sakna hans. Á nútímamælikvarða hefði afi ekki talist liðtækur í heimilisstörfunum enda gamla verkaskiptingin þar í öndvegi. Hann lét því ömmu um heimilið og eins og við hin kunni hann vel að meta bakstur hennar og matseld.

Ég held að afi hafi verið mjög ánægður með líf sitt. Mjög þungbært var þó honum að missa yngsta son þeirra ömmu, Guðmund, en Gummi lést eftir langvinn veikindi langt fyrir aldur fram. Ömmu, lífsförunaut sinn yfir nærri 65 ár, missti afi í nóvember fyrir tæpu ári. Síðustu árin voru þau bæði á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og þakka ég starfsfólki sjúkrahússins fyrir sitt góða starf. Síðan amma fór hrakaði heilsu afa hratt, enda er þetta síðasta ár búið að vera honum erfitt.

Ég sendi öllum vinum og ættingjum hans Konna afa míns samúðaróskir mínar. Óska ég þess að nú hafi afi og amma sameinast á ný. Minninguna um afa og ömmu á Sigló mun ég alltaf varðveita.

Óskar Páll Óskarsson