Systkinin frá Sólbakka í Vestmannaeyjum eru að týna tölunni. Af alsystkinahópnum, börnum Peters Andersens og Jóhönnu Guðjónsdóttur, lifa nú aðeins Knud og Guðrún. Á undan eru gengin Eva, Willum og Emil (Malli) og nú síðast Njáll.

Með Njáli Andersen er genginn einn af síðustu fulltrúum þeirrar kynslóðar sem færði Ísland inn í nútímann og stóð jafnan sína plikt vafningalaust með hógværð og stillingu. Þetta átti jafnvel enn frekar við Njál Andersen en margt annað fólk. Hann var dagfarsprúður heiðursmaður og mesti ljúflingur. Hans verður sárt saknað af öllum sem þekktu hann - börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum og stórum frændgarði. Allt þetta fólk hefur misst mikið. Enginn hefur þó misst meira en eiginkona hans um drjúga hálfa öld, Dóra Úlfarsdóttir. Mér fannst alltaf leitun að fólki sem var samhentara en þau Njáll og Dóra. Hún er ljúf kona, dýrleg og gestrisin vinkona heim að sækja og skemmtilegri en flest annað fólk.

Ég hef þekkt Njál og Dóru síðan ég man fyrst eftir mér. Þau komu í heimsóknir til stóru systur, móður minnar, í Reykjavík. Og ég man að stundum komu þau öll systkinin frá Sólbakka með mökum sínum og þau runnu í eina heild í barnshöfðinu: einn bróðir mömmu hét Willum-o-Lóa, annar Malli-o-Dísa, þá Njáll-o-Dóra og Knud-o-Rakel sá fjórði. Og yngst var Gunn-o-Bogi, sem einnig gekk (og gengur enn í mínum systkinahópi) undir nafninu Gunna systir.

Ekki man ég nákvæmlega hvenær ég áttaði mig á því að þetta væru margar manneskjur og ekki nema helmingurinn, eða kannski rúmlega það, í blóðböndum við mig. En þetta voru óskaplega skemmtilegar heimsóknir, það var mikið hlegið og spaugað og spjallað. Stundum kom onkel Theódór, einn af yngri bræðrum danska-Péturs afa, í heimsókn frá Danmörku og þá voru reyktir London Docks-vindlar, drukkið te og talað hátíðlega á dönsku. Og þegar farið var að tala hátíðlega, þá minnir mig að þeir Willum heitinn móðurbróðir minn og Bogi í Sandprýði hafi logið aðeins minna en endranær. Líklega var það vegna þess að menn sögðu ekki ýkjusögur á jafn merkilegu tungumáli og dönsku.

Ég sat dolfallinn og starði stóreygur á þessa ævintýramenn sem sigldu skipum sínum um úfinn sjó og höfðu komið til sjálfrar Kaupmannahafnar. Í augum móður minnar voru bræðurnir í Eyjum merkilegri en aðrir menn - og raunar Vestmannaeyingar almennt merkilegri en annað fólk. Og þegar hún talaði um bræður sína eða þeirra fólk, þá var það af mikilli virðingu og einlægri væntumþykju, enda höfðu þeir reynst henni betur en enginn þegar hún stýrði ung í gegnum sína ólgusjói.

Þegar ég fór svo að vaxa úr grasi og kynnast systkinunum frá Sólbakka á eigin forsendum, fór ég að skilja afstöðu móður minnar. Fólkið sem ég kynntist var fágætt sómafólk, gegnheilt og heiðarlegt, fólk sem stendur við orð sín og stendur með sínum eins og óbifanlegir klettar upp úr ólguróti lífsins sjóa og lætur ekki ágjöfina á sig fá. Ef það á tvo kosti, þá kýs það að gera það sem er rétt og heiðarlegt, hvort sem það hentar þeim persónulega eða ekki. Það er mikill heiður að vera af þessu kyni.

Njáll frændi minn og systkini hans voru komin af hörðum sjósóknurum, skipasmiðum og handverksmönnum. Þeim var - og er - snyrtimennskan í blóð borin. Allt umhverfi þeirra bar þess vitni og þá ekki síst lystigarðar bræðranna, Njáls og Knuds, við Hásteinsveginn, þar sem þeir afsönnuðu rækilega þá lífseigu kenningu að ekki sé hægt að rækta blóm og tré og jarðarber í Vestmannaeyjum.

Njáll Andersen ræktaði vel sinn garð og gerði það af þeirri trúmennsku og vandvirkni sem honum var eðlislæg. Og þótt hann sé nú sjálfur búinn að kveðja, þá lifa þessir eftirsóknarverðu eiginleikar í afkomendum hans og í minningunni um vandaðan sómamann.

Við sendum Dóru og börnum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur úr fjarlægri heimsálfu og söknum þess að geta ekki verið nærstödd á kveðjustundu.

Ómar og fjölskylda