Við fráfall föður míns Njáls Andersen langar mig að koma á framfæri nokkrum kveðjuorðum. Frá því ég fyrst man eftir mér var ég alltaf ákveðinn hvað ég ætlaði að gera þegar ég yrði stór. Ég ætlaði að vinna í smiðjunni hans pabba og þar byrjaði ég 15 ára gamall. Þetta sýnir best þá virðingu sem ég bar fyrir pabba og vinnunni hans. Sú þekking og reynsla sem ég fékk þar hefur reynst mér dýrmæt í gegnum ævina eins og þeim mörgu sem lærðu í Magna. Frá þeim félögum þar kom stór hópur af fagmönnum sem alls staðar hafa getið sér góðs orðs fyrir hæfni og þekkingu.

Heimilið að Hásteinsvegi 29 var rekið af miklum myndarskap, bæði hvað varðar húsmóður- og húsbóndahlutverkið. Pabbi gat verið bæði trésmiður, pípulagningamaður eða hvað sem hann þurfti að vera í það og það skiptið. Enda mátti sjá myndarskapinn hvert sem litið var, allt var í röð og reglu hvort sem var innan húss eða utan.

Þá var móðir mín ekki lök við að sauma ný föt upp úr gömlum fötum og ekki þekki ég betri kokk eða bakara.

Það var mikið lán að fæðast inn í þessa frábæru fjölskyldu og fá að alast upp með þessu sómafólki. Um leið og ég þakka foreldrum mínum fyrir uppeldið þá vil ég þakka systrum mínum fyrir alla þá umhyggju sem þær hafa sýnt pabba og mömmu alla tíð.

Vertu bless elsku pabbi minn, ég veit ég á eftir að hitta þig aftur eftir upprisuna miklu á síðasta degi sem Marta segir frá í Jóh. 11:24. Þangað til geymi ég í brjósti mér minningu um ástríkan föður.

Úlfar Njálsson