Njáll Andersen var fæddur í Landlist í Vestmannaeyjum 24. júní 1914. Hann lést á hjartadeild Landsspítalans 27. október sl. Foreldrar Njáls voru Jóhanna Guðjónsdóttir Andersen, fædd 27. febrúar 1889 í Sigluvík í Landeyjum, dáin 23. nóvember 1934 og Hans Peter Andersen, fæddur í Frederiksund í Danmörku 30. mars 1887, dáin 6. apríl 1955. Börn Jóhönnu og Péturs voru Eva, Willum, Knud, Njáll, Emil og Guðrún. Knud og Guðrún lifa systkini sín. Börn Péturs frá seinna hjónabandi eru Jóhann og Valgerður.

Njáll kvæntist Halldóru Úlfarsdóttur frá Vattarnesi við Reyðarfjörð 8. apríl 1939. Halldóra er fædd 2. október 1918, dóttir hjónanna Maríu Halldórsdóttur frá Hofi í Fellum f. 16. september 1897 d. 1939 og Úlfars Kjartanssonar útgerðarmanns frá Dagsbrún, Vattarnesi f. 26. nóvember 1895 d. 1985. Börn Njáls og Dóru eru: 1) María Jóhanna, skólaliði, fædd 11. febrúar 1940, gift Kolbeini Ólafssyni kaupmanni, f. 21. október 1938. Börn þeirra eru Valgeir Ólafur vélvirki, Njáll skipstjóri, Dóra fiskverkakona og Kolbrún framhaldsskólakennari. 2) Úlfar, vélvirki, fæddur 10. janúar 1943, kvæntist Ástu Kristinsdóttur skrifstofudömu. Börn þeirra eru Smári, vélvirki og Rósmarý, skrifstofustúlka. Úlfar og Ásta skildu. Seinni kona Úlfars er Halla Hafsteinsdóttir hárgreiðsludama. Börn þeirra eru Katrín Dóra og Þór Daníel. 3) Harpa, skólaliði fædd 10. ágúst 1948, giftist Ólafi Óskarssyni pípulagningamanni. Börn þeirra eru Óskar verslunarmaður og Halldóra húsmóðir. Ólafur lést. Seinni maður Hörpu er Atli Sigurðsson skipstjóri og eiga þau dótturina Sigríði Sunnu. 4) Jóhanna, kennari, fædd 27. apríl 1953, gift Ragnari Óskarssyni framhaldsskólakennara. Börn þeirra eru Óskar læknir, Guðbjörg Vallý sjúkraliðanemi og Njáll. 5) Pétur, vélvirki og útgerðartæknir, fæddur 1. janúar 1955, kvæntur Andreu Gunnarsdóttur, tölvufræðingi. Synir þeirra eru Valgeir vélstjóri og Njáll vélskólanemi. 6) Theodor Friðrik, viðskiptafræðingur, fæddur 3. mars 1960, kvæntur Siv Schalin hagfræðingi. Börn þeirra eru Dagmar Soffie og Anton Benedikt.

Njáll hóf nám í Vélsmiðjunni hjá Guðjóni Jónssyni 16 ára gamall og lauk þaðan vélvirkjanámi. Að námi loknu fór hann til Hundested í Danmörku til að öðlast víðtækari þekkingu og reynslu í vélvirkjun. Hann kom aftur heim 1937 og hóf þá strax vinnu hjá Guðjóni en gamla vélsmiðja Guðjóns hafði þá verið sameinuð annarri lítilli smiðju og þar með hafði Vélsmiðjan Magni verið stofnuð. Hann keypti hluta í Magna 1941 og fljótlega var hann gerður að verkstjóra þar. Því starfi gegndi hann þar til Magni og Völundur voru sameinuð og úr þeim fyrirtækjum var Skipalyftan hf. í Vestmannaeyjum stofnuð. Njáll var verkstjóri í Skipalyftunni fyrstu starfsár hennar en lét af þeim störfum vegna heilsubrests.

Njáll var alla tíð í Iðnaðarmannafélagi Vestmannaeyja. Hann var einn af stofnendum Skógræktarfélags Vestmannaeyja. Eftir að Njáll hætti störfum gerðist hann félagi í Félagi eldri borgara og voru þau Dóra og Njáll virk í því.

Útför hans fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag og hefst athöfnin kl. 14.

ævi>