Til eru menn þeirrar gerðar, að hvert loforð um viðvik eða verk, stendur eins og stafur á bók. Samviskusemi og heiðarleiki er þeirra aðalsmerki og vart fellur blettur eða hrukka á persónuleikann og alla lífsins framgöngu. Hugur og geðslag margra þessara manna hefur verið meitlað af mikilli vandvirkni, þar sem saman fer ljúft viðmót, gætni í allri orðræðu og af þeirra vörum falla ekki ónot í garð nokkurs manns. Lífsgangan mótast af hógværð, nægjusemi, prúðmennsku og ríkri sómatilfinningu.

Eiríkur Jónsson garðyrkjumaður var þessarar gerðar. Með ljúfmennsku sinni og góðvild í allra garð laðaði hann fram virðingu og væntumþykju þeirra, er honum kynntust. Eiríkur hafði verið í föstu starfi næturvarðar hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði frá árinu 1994, en hafði áður tekið að sér ýmis verk fyrir stofnunina. Hann varð bráðkvaddur við störf sín og mikill harmdauði öllu samstarfsfólki.

Stundum er sagt að á látna menn sé borið oflof. Að rekja alla hina góðu eðliskosti Eiríks Jónssonar gæti ókunnugum þótt of djúpt í árinni tekið. En í fari hans öllu fundu fáir galla. Störf sín hjá Heilsustofnun innti hann af hendi með slíkum ágætum, að mér er ekki í minni að verk hans hafi verið gagnrýnd. Í næturstarfi sínu vakti Eiríkur, ásamt hjúkrunarfólki og læknum, yfir velferð sjúklinga, gætti þess að allt væri með felldu í stórri stofnun og að sem flest væri í góðu horfi þegar morgunstörfin hæfust. Öll verk sín vann hann af stakri alúð og samviskusemi og ósjaldan kom hann utan vinnutíma til að aðgæta hvort viðgerð héldi, vatnshiti væri réttur í laugum eða til að ræða hvernig betur mætti búa að dvalargestum eða bæta aðstöðu.

Margar stundir áttum við Eiríkur í heita pottinum í einni bestu sundlaug landsins; lauginni í Laugaskarði. Oftar en ekki var umræðuefnið hvernig hag Heilsustofnunar yrði best ráðið. Í þessum samtölum okkar gerði ég mér grein fyrir því, að gildismat Eiríks var um margt ólíkt því, sem nú er mest dýrkað og dáð í umhverfi okkar. Hið svokallaða lífsgæðakapphlaup, ágirnd og græðgi, var honum fjarri skapi. Ég hygg að heimilið og fjölskyldan hafi skipt hann öllu máli og hugsun hans og gjörð beinst að velferð hennar. Þar leitaði hann hamingju sinnar.

Gott starfsfólk er mesti auður hvers fyrirtækis og stofnunar. Í því tilliti er Heilsustofnun NLFÍ stórauðug. Eiríkur Jónsson var einn af eðalsteinunum í þeim fjársjóði. Megi góður Guð blessa minningu hans og styðja og styrkja fjölskyldu hans á erfiðri stund.

Árni Gunnarsson