Elsku pabbi, okkur langar til að minnast þín í nokkrum orðum. Nú eru búinn að fá hvíldina eftir löng og erfið veikindi. Þú þurftir snemma að horfast í augu við lífið þegar þú 5 ára misstir móður þína,og varst sendur í fóstur til frænda þíns Guðmundar og konu hans Sigurbjargar sem bjuggu á Sveinsstöðum í Hellisfirði. Einu sinni sagðir þú okkur frá þegar þú varst keyptur fyrir eldspýtustokk til að fara í fóstur í Hellisfjörð því að systir þín vildi ekki fara. Við minnumst þín sem góðs föður og afa sem vildir allt fyrir okkur gera og hugsaðir vel um hjörðina þína og varst svo góður við barnabörnin. Við minnumst þess líka þegar við vorum litlar og þú varst á togurunum fyrir austan og varst í burtu um hátíðar og við vorum að senda kveðjur í útvarpið. Þú vannst alltaf mikið og varst trúr vinnuveitendum þínum. Það var líka mikill ævintýraljómi yfir því þegar farið var á hverju sumri til Skagafjarðar til að heimsækja ömmu og afa og annað skyldfólk. En í huganum lifir minning um góðar og skemmtilegar stundir sem við áttum með þér.

Við viljum þakka starfsfólki Hlévangs í Keflavík, Garðvangi í Garði og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrir góða umönnun í veikindum hans.

Elsku mamma, missirinn er mikill og söknuðurinn sár. Guð gefi þér styrk til að takast á við þessa miklu sorg.

Sigurbjörg og Hjördís