Elsku Geiri.

Það er svo sárt að þurfa að kveðja þig. Þú varst sterkur, skemmtilegur og góður persónuleiki, sem kenndir okkur margt um lífið. Þú varst góður vinur.

Það eru svo margar góðar minningar sem við eigum um þig. Við höfum verið að rifja upp stundirnar með þér: hversdagslegar, eins og samræður yfir kaffibolla eða ævintýralegar eins og ferðir í íshellinn og á staði sem mann oft grunaði að aðeins þú vissir af.

Þú varst duglegur að hafa samband, hringdir oft og það var alltaf svo gott að ræða málin við þig. Það er ekki langt síðan þú hringdir og við ræddum hvenær þú kæmir til Reykjavíkur í desember, í þína árlegu bæjarferð til að gefa rjúpur í jólamatinn. Það er svo erfitt að sætta sig við að þú komir ekki.

Þú áttir þér marga drauma þó að þú segðir okkur ekki alla! Einn þeirra var að koma á laggirnar fuglasafni fyrir fuglana þína. Okkur fannst súrt að þeir væru ekki komnir á stað þar sem þeir nytu sín og sorglegt að fá ekki að upplifa þann dag að sjá þig hamingjusaman yfir því að þessi draumur rætist. Það er vonandi að við sem stöndum eftir geti gert þennan draum þinn að veruleika.

Ættingjum Geira og vinum vottum við innstu samúð. Við þökkum þennan tíma sem þú áttir með okkur.

Þínir vinir,

Svanhildyr Anja og Sigurður Ágúst