Með sorg í hjarta en jafnframt þakklæti í huga kveð ég þig, afi minn. Þegar mér var tilkynnt um andlát þitt daginn fyrir áttræðisafmæli þitt fylltist ég bæði sorg og trega. Ég vissi að veikindi þín síðustu dagana voru alvarleg en vonaði alltaf innst inni að þú myndir ná bata. Við fráfall þitt myndaðist ákveðið tómarúm í hjarta mínu, tómarúm sem verður vandfyllt. Ég þakka fyrir þær stundir sem við áttum saman og fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þér eins vel og raun bar vitni. Minningarnar hafa á síðustu dögum hrannast upp í huga mínum, jafnvel minningar sem að ég hélt að væru mér fyrir löngu týndar.

Fyrir rúmum mánuði komu þú og amma heim til okkar í skírnarveislu Sunnevu Rósar, dóttur okkar. Ekki hefði maður getað ímyndað sér það þá að það væri í síðasta sinn sem þú heimsæktir okkur. Börnum okkar báðum hefði ég óskað að þau hefðu fengið tækifæri til að kynnast betur þeim mannkostum sem þig prýddu. Ég veit að þau kynni hefðu orðið þeim gott veganesti út í lífið rétt eins og okkar kynni hafa reynst mér. Mér er það ofarlega í huga hversu vel þú fylgdist með okkur barnabörnunum og gafst þér alltaf tíma til að setja þig inn í okkar mál. Fyrir vikið fannst manni alltaf að maður væri sérstakur hjá þér og er ég viss um að bræður mínir og frændsystkini eru sama sinnis.

Ég minnist þess hversu gaman það var að heimsækja ykkur ömmu í Eyjarholtið því maður vissi alltaf að þar var allt gert til að manni liði sem best. Oft var gripið í spilastokk og ósjaldan sat maður með ykkur og spilaði rommí, jafnvel svo tímunum skipti. Ég minnist líka að við sátum oft tveir og horfðum á ensku knattspyrnuna í sjónvarpinu á laugardögum. Þá eru mér minnisstæðar allar bingó- og spilavistarferðirnar sem þið amma tókuð mig með í.

Er ég síðan sjálfur stofnaði heimili gafst okkur minni tími til samveru en maður reyndi hins vegar að njóta þess betur þegar öll fjölskyldan kom saman við hátíðleg tækifæri. Minnisstæð eru ein áramót heima hjá mömmu og pabba í Hraunholtinu þegar við vorum í sannkölluðu áramótaskapi og þú skaust upp flugeldum með afar sérstökum hætti.

Mér þótti mjög vænt um hvað þú varst duglegur að sækja fótboltaleikina þegar ég var að spila, alveg frá því að ég var í yngri flokkunum og upp í meistaraflokk þar til núna síðastliðið ár þegar þú hafðir ekki lengur heilsu til að sækja leikina. Þú sóttir flestalla heimaleikina og oft fórstu með bræðrum mínum þegar við vorum að spila utanbæjar. Þú varst óspar á að hæla manni þegar þér fannst maður eiga það skilið og hvattir mig duglega áfram þegar illa gekk. Það er skrýtið að hugsa til þess að eiga ekki eftir að sjá þig aftur á vellinum en ég veit að þú fylgist vel með úr fjarlægð ásamt honum nafna þínum.

Einnig dáðist ég að því hversu duglegur þú varst að sækja langafabörnin heim á afmælum þeirra þrátt fyrir frekar slæma heilsu nú síðustu ár. Þú varst nú bara þannig að þér leið hvergi betur en í faðmi fjölskyldunnar.

Elsku amma, missir þinn er mikill en ég vona að guð gefi þér styrk og þrek á þessari sorgarstundu. Minningin um merkan mann lifir í huga okkar allra sem hann þekktum.

Hlynur