Þegar við vinkonurnar komum í sveitina á vorin til að eyða þar sumrinu, leið ekki á löngu þar til Geiri mætti fullur orku og bauð okkur velkomnar í sveitina sína. Náttúran var skriðin úr vetrardvala og hann hafði alltaf skipulagt margar ferðir sem við fórum með honum í um sumarið. Það var alltaf jafn gaman í þessum ferðum, hvort sem við fórum að skoða fjöll, íshella, sprengigíga eða fugla, og þegar við hugsum til baka minnumst við ótal skemmtilegra ferða sem hann bauð okkur með í.

Ef það var eitthvað sem við höfðum löngun til að sjá eða gera, var ekkert sjálfsagðara hjá honum en að sjá um að það yrði gert. Þegar farið var á sveitaböll setti ferðin á ballið iðulega mikinn svip á kvöldið. Hann keyrði okkur fjósastelpurnar á ballið á stóra bílnum sínum, með græjurnar í botni og allir sungu með. Hann var til í allt, eða eins og hann sgði svo oft sjálfur: "Ég er til í allt nema sjálfsmorð og giftingu," og erum við honum ævinlega þakklátar fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur.

Það er okkur ómetanlegt að hafa átt þennan trygga, hjálpfúsa, hjartahlýja og síhressa vin. Við sendum ættingjum hans og ástvinum okkar innilegu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Svanhildur, Hildur, Þórdís, Margrét og Fanney