Sigurgeir, frændi okkar og náinn vinur, er látinn langt fyrir aldur fram. Geiri, eins og hann var alltaf kallaður, ólst upp á mjög kærleiksríku heimili í Mývatnssveit, umvafinn stórum systkinahópi. Mikill og náinn vinskapur hefur verið milli fjölskyldna okkar kynslóð fram af kynslóð. Alltaf hefur verið mikil tilhlökkun að heimsækja vini okkar í Ytri-Neslöndum enda glaðværara og gestrisnara fólk vandfundið.

Geiri var einstaklega kátur, brosmildur og ljúfur, þannig að manni leið alltaf vel í návist hans. Hann var mjög félagslyndur og lét sig sjaldan vanta ef eitthvað stóð til. Skipti þá litlu máli hvort það var í sveitinni eða fyrir sunnan. Heimsókna hans til okkar í þeim ferðum verður sárt saknað. Geiri var ósérhlífinn og greiðvikinn og tók m.a. virkan þátt í bústörfum á næstu bæjum ef á þurfti að halda. Einnig hafði hann gaman af því að skjótast með vini og/eða gesti um sveitina og víðar. Það kom því ekki á óvart þegar hann var fenginn til að vera bílstjóri frú Vigdísar Finnbogadóttur, þáverandi forseta Íslands, í skemmtiferð hennar frá Mývatni upp á hálendið. Áratugum saman hefur fjölskyldan í Ytri-Neslöndum sent okkur rjúpur í jólamatinn. Síðustu ár tók Geiri við af föður sínum og gekk á fjöll í rjúpnaleit og ávallt stækkaði þessi höfðinglega jólagjöf í réttu hlutfalli við vöxt fjölskyldu okkar.

Fuglalífið í Mývatnssveit er einstakt og Geiri var ekki gamall þegar hann fór að sýna því mikinn áhuga. Í gegnum árin safnaði hann eggjum og uppstoppuðum fuglum og átti orðið einstakt safn, sem varð tilefni umfjöllunar bæði í dagblöðum og sjónvarpi. Það var alveg sérstakt að fá að fara með Geira inn í litla skúrinn, sem hýsti safnið hans, og hlusta á hann segja frá hverjum fugli af miklum áhuga og þekkingu. Oft var þar þröng á þingi, þar sem bæði innlendir og erlendir ferðamenn sóttust eftir því að skoða safnið. Þeir sem þekkja vini okkar á Neslandatanganum finna í hve sterkum tengslum þau eru við náttúruna, lífsglatt og kærleiksríkt fólk sem lifir fyrir hvern dag og tekur flestu, sem að höndum ber, með jafnaðargeði. Þannig var hann Geiri okkar, jákvæður og reyndi alltaf að líta á björtu hliðarnar: "Ég segi allt gott, þýðir nokkuð annað?" var hans tilsvar, sem lýsti honum vel.

Geiri skipaði sérstakan sess í lífi okkar allra. Hans verður sárt saknað en minningin um góðan mann og kæran vin mun fylgja okkur um ókomna tíð.

Sólveig, Vilhjálmur Már, Gunnhildur, Sigurjón Már, Valdís Fríða og fjölskyldur þeirra