Komið er að hinstu kveðju, Bjarni tengdafaðir minn er dáinn, það er margs að minnast, fyrstu kynni mín af Bjarna byrjuðu þegar ég sem unglingur fór að vinna í frystihúsi í Garðinum, þá var hann vélamaður á staðnum. Það var síðan breiður faðmur Bjarna sem tók á móti mér, og bar aldrei skugga á þegar kynni okkar Helga hófust. Við byrjuðum okkar búskap í húsi tengdaforeldra minna, Vík, Garði, og var sambandið við þau því mjög náið. Eins var það þegar þau fluttu sig til innan Garðsins þá bjuggu þau hjá okkur þar til þeirra húsnæði var tilbúið, sem var í næstu götu. Það eru eingöngu góðar minningar sem ég á um Bjarna, og við nánari kynni komu í ljós hans heilindi og greiðvikni gagnvart mér og ef ég bað um eitthvað þá hálfhljóp hann til að klára verkið og þótti mér oft nóg um. Hann var elskaður og dáður af mér og mínum börnum, enda alltaf athvarf hjá afa og ömmu í Eyjaholtinu.

Bjarni var mikill fjölskyldumaður, og var mjög umhugað um alla fjölskyldumeðlimi, og bjó að mínu mati í mjög ástríku hjónabandi og hefur Elísabet stutt sinn mann vel í gegnum tíðina. Sorgin knúði dyra hjá Bjarna ásamt allri fjölskyldunni þegar dóttursonur hans og nafni Bjarni Jóhannsson lést af slysförum 28.10. '91, og var það honum mjög þungbært eins og nærri má geta. Það kemur til með að vanta hlekk í fjölskyldukeðjuna, þar sem Bjarni verður ekki með okkur um næstu jól, sem verður skrýtið þar sem þau hjón hafa verið hjá okkur á aðfangadagskvöld s.l. 23 ár. Um persónuleika Bjarna má segja að hlýja og traust var hans aðalmerki fyrir mig, en hann hafði sitt skap, átti til að vera þungur sem bar þó aðallega á nú hin síðustu ár, bitnaði að vísu stundum á þeim sem síst skyldi en þreytt sál í veikum líkama tjáði sig á þennan hátt. Heilsu Bjarna hefur hrakað mjög undanfarin ár og hefur hann oft þurft að dvelja á sjúkrastofnunum um lengri og skemri tíma, sem átti nú ekki við minn mann. Hann var orðinn langþreyttur á ástandinu og tjáði sig oft um það, ég fylgdi honum eftir í öllum hans veikindum, skildi vel stöðuna og veit að Bjarni var hvíldinni feginn. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en var undir það síðasta vistmaður á Garðvangi í Garði ásamt eiginkonu sinni.

Hjúkrunarfólki og læknum á báðum stofnunum sendi ég mínar bestu þakkir fyrir frábæra hjúkrun, alúð, og umönnun. Einnig vil ég koma á framfæri þökkum til Aðalbergs Þórarinssonar leigubílstjóra í Keflavík sem Bjarni treysti svo vel til flutnings á sér og sinni konu sem er í hjólastól, þegar eitthvað stóð til og þurfti sérstakan bíl til flutnings.

Ég votta tengdamóður minni, aðstandendum og ástvinum Bjarna mína dýpstu samúð.

Hvíl í friði, elsku vinur, þín tengdadóttir,

Aðalheiður Valgeirsdóttir