Kæri Geiri. Það er ótrúlegt hvað tíminn getur verið fljótur að líða. Þegar ég settist niður og fór að láta hugann reika gat ég t.d. ómögulega trúað því að það væru heil 25 ár, eða aldarfjórðungur, síðan ég deildi fyrst herbergi með ykkur bræðrum í heimavistinni á Skútustöðum. Þá var ég yngstur, að koma í heimavist í fyrsta skipti en þið orðnir heimavanir og allt frá fyrsta degi hélduð þið verndarhendi yfir mér. Ekki svo að skilja að þetta litla samfélag hafi verið óvinveitt. Öðru nær. Í raun vorum við eins og ein stór fjölskylda með Þráin og Möggu í forsæti ásamt Arngrími og Gýgju, að ógleymdum Helgu og Finnu í eldhúsinu.

Þegar hugsað er til baka renna upp ýmis minningarbrot frá þessum árum, líkast ljósmyndum eða stuttum myndskeiðum. Við spjölluðum margt eftir að búið var að slökkva ljósin á kvöldin en ekkert af því verður gefið upp hér. Mér er líka ógleymanleg einhverju sinni þegar Þráinn var að sýna okkur fuglamyndir og við áttum að geta upp á nöfnunum. Þar stóðst enginn þér snúning og ég man hvað ég dáðist að þessum hæfileika þínum. T.d. kom upp mynd af fugli, ekki alveg ósvipuðum spóa, en með rauðbrúnan háls. Þetta var jaðrakan sem fæst okkar höfðu þá séð en þú stóðst ekki á gati frekar en fyrri daginn. Síðan þá sé ég ekki þennan fallega fugl án þess að þetta kvöld rifjist upp. Þarna var strax kominn í ljós hinn mikli áhugi þinn á fugla- og dýralífi sem einstakt fuglasafn þitt heima í Neslöndum ber ótvírætt vitni um.

Það er örugglega leitun að jafn duglegum og hjálpsömum dreng og Geira í Neslöndum. Þess naut ég meðan við vorum saman á Skútustöðum og einnig margsinnis við önnur tækifæri. Þegar ég t.d. byrjaði í Kísiliðjunni sást þú um að kenna mér réttu handtökin við pökkunina og betri kennara hefði ég varla getað haft. Hin síðari ár, eftir að ég flutti burt úr Mývatnssveit, hefur samverustundunum okkar fækkað. Helst að við hittumst á réttinni og sleðasýningunum á Akureyri. Nú eruð þið bræður aftur saman og hafið án efa um margt að spjalla. Einhvern daginn hittumst við allir þrír aftur og getum þá rifjað upp góðar minningar frá heimavistarárunum á Skútustöðum og ýmsu öðru sem við brölluðum saman. Nú er hins vegar kominn tími til að kveðja að sinni.

Innilega samúð votta ég foreldrum, systkinum og öðrum aðstandendum. Meðal okkar lifir minning um góðan dreng.

Halldór frá Brekku