Mývetningum verður þriðjudagskvöldið 26. október sl. og næstu sólarhringar þar á eftir lengi í minnum. Fregn barst af alvarlegu bifreiðarslysi í Námaskarði og björgunarmenn voru vart komnir af slysstað þegar farið var að óttast um þrjá menn sem voru við vinnu úti á Mývatni.

Því miður reyndist óttinn á rökum reistur, þriggja manna var saknað. Íbúar í Mývatnssveit voru skelfingu lostnir. Hugur fólks var hjá ástvinum þeirra sem saknað var. Allir reyndu af mætti að rétta hjálparhönd þar sem hennar var þörf. Björgunarmenn áttu aðdáun allra. Þrátt fyrir vonir og bænir varð kaldur raunveruleikinn ekki flúinn. Þrír vaskir menn höfðu farist í Mývatni við erfið skyldustörf. Ástvinum þeirr allra sendum við samúðarkveðjur.

Skömmu eftir að við hjónin settumst að í Mývatnssveit fyrir tæpum þremur árum kynntumst við Sigurgeiri Stefánssyni frá Ytri-Neslöndum, Geira vini okkar. Á þeim skamma tíma sem kynnin stóðu í þessu jarðlífi bar aldrei skugga á. Þvert á móti. Geiri vinur okkar var með glaðlyndustu mönnum sem við höfum kynnst. Aldrei var illa að honum sótt. Kátínan, brosmildin og fölskvalaus vináttan var alltaf til staðar. Svo greiðvikinn og bóngóður var Geiri, að á stundum veigraði maður sér við að biðja hann bónar.

Vináttan yfirfærðist jafnframt á börn okkar og aðra vini. Allt var sjálfsagt að gera til að létta undir með þeim.

Fyrir fáum árum fannst athyglisverður hellir í Mývatnssveit sem nefndur er Lofthellir. Þangað er torsótt að komast. Við höfðum haft á orði að við þyrftum að njóta leiðsagnar Geira þangað.

Árla dags í haust var knúið dyra. Geiri var mættur til að drífa "kallinn" með sér í Lofthelli. "Kallinn og Gugga" voru ekki heima. Þá vildi hann drífa elstu dótturina með. Hún komst ekki vegna vinnu sinnar og sagði: "Við förum seinna, Geiri." Hvorki hún né "kallinn" fara með Geira í Lofthelli í þessu jarðlífi.

Koma tímar og koma ráð. Sigurgeir Stefánsson hafði komið sér upp stærsta fuglasafni í eigu einstaklings hér á landi. Aðrir munu gera því safni betri skil en við erum fær um. Nauðsyn ber hins vegar til að þessu mikla safni verði við haldið og því búin sú umgjörð sem vera ber. Við heitum á alla að leggja því máli lið í minningu góðs drengs.

Við hjónin og börn okkar færum ástvinum Geira vinar okkar innilegar samúðarkveðjur. Bjartar minningar um glaðværan og góðan vin geymum við í hjörtum okkar.

Guðbjörg og Sigbjörn