Að kvöldi 26. október síðastliðinn fékk ég hringingu um að menn hefðu farið út á Mývatn og ekki skilað sér til baka.

Það setti strax óhug að okkur sem fyrstir komum á vettvang og skynjuðum að úti á vatni væru þrír menn í aftakaveðri. Strax voru gerðar ráðstafanir og leit hafin en því miður án árangurs. Sá mikli missir sem við okkur blasir var orðin staðreynd.

Á meðal þeirra sem fórust var einn starfsmaður minn, Sigurgeir Stefánsson, hann Geiri. Þrátt fyrir að ég hafi ekki starfað lengi hjá Kísiliðjunni hafði ég þegar kynnst Geira. Geiri var samviskusamur og duglegur starfsmaður. Geiri var mjög farsæll starfsmaður Kísiliðjunnar og hans verður sárt saknað. Sárt er að geta ekki heiðrað Geira á næstu árshátíð félagsins vegna 20 ára starfsafmælis hans eins og til stóð. Örlögin gripu inn í atburðarrásina.

Fyrir hönd Kísiliðjunnar votta ég foreldrum, systkinum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð. Guð veri með ykkur.

Gunnar Örn Gunnarsson