Við horfum upp til himins, niður úr skýjunum brjótast sólargeislarnir, skýin sjálf svo litfögur, stórfengleg og bregða upp litrænum myndum, þvílíkt meistaraverk. Þú ert kominn til himins, heim, elsku afi. Minningar um þig, elsku afi, eru svo margar, dýrmætar og hjartfólgnar, allt frá því við vorum litlar stelpur og nú fullorðnar konur. Afi var svo ljúfur maður og miðlaði svo ríkulega af kærleika, nærgætni og jákvæðri hugsun. Ekkert verður samt og áður. Í huga okkar ríkir söknuður, þakklæti til afa og djúp virðing en um leið sú gleði yfir því að þú skulir vera kominn til himinsins, heim þar sem ljós friðarins fylgir þér á æðri stigu.

Alltaf var það mikið tilhlökkunarefni þegar við vorum að fara í heimsókn til ömmu og afa í Garðinn. Það var alltaf svo gott og gaman að koma til þeirra, fyrst í Víkina og síðar í Eyjaholtið, alltaf var tekið á móti okkur með opnum örmum og alltaf var amma tilbúin með pönnukökurnar og afi lumaði á einhverju góðgæti til að stinga upp í okkur. Alltaf var afi tilbúinn að sinna okkur þegar við komum til hans, ógleymanlegir eru bíltúrarnir sem farnir voru. Það var keyrt niður á bryggju, út á skaga og til Sandgerðis og svo þegar farið var til Keflavíkur á föstudögum til að versla, voru það ógleymanlegar ferðir. Eitt atvik er mjög minnisstætt en það var þegar ein okkar systra var í baði í Víkinni og þá sá hún rottu skjótast yfir gólfið og öskraði á afa og með sinni rósemi tókst honum að drepa rottuna og róa stelpuna. Þetta atvik lýsir afa mjög vel. Aldrei minnumst við þess að hafa séð afa skipta skapi, hann tók alltaf öllum hlutum með slíkri rósemi, og ég held að við höfum öll lært mikið af honum.

Þegar líða tók að jólum færðist spenningur í okkur systur á Húsavík því við vissum að afi laumaði alltaf einhverju "amerísku nammi" í jólapakkana okkar, það fannst okkur mjög spennandi af því að þetta var nammi sem ekki fékkst nema á Vellinum þar sem afi var að vinna og vissi hann það að hann væri að gleðja okkur með þessu og þá leið honum svo vel.

Alltaf var gaman á sumrin þegar amma og afi komu norður til Húsavíkur í heimsókn til okkar. Þau komu keyrandi á Skodanum sínum og þá var mikill spenningur í okkur og við biðum úti í glugga allan daginn og mikil var gleðin þegar við loksins sáum Skodann koma. Eitt af því sem alltaf var gert þegar amma og afi komu til Húsavíkur var að fara í berjamó, en það fannst þeim mjög gaman og voru það alltaf mjög skemmtilegar stundir. Svo var alltaf eldaður siginn fiskur þegar amma og afi voru í heimsókn og fannst okkur systrum það vera frekar ólystugur matur og borðuðum við ekki mikið en þetta var eitt af því besta sem afi fékk að borða og skein gleðin úr augum hans þegar við settumst við borðið. Honum fannst við vera frekar miklir gikkir að borða ekki siginn fisk.

Það er ekki hægt að minnast afa án þess að tala um ömmu, því afi og amma voru mjög samrýnd og þau gerðu allt saman. Þegar á efri árin var komið og afi hættur að vinna voru þau alltaf eitthvað að dunda sér saman, m.a. hnýta öngla, spila, fóru í bingó og göngutúra. Afi dundaði sér líka mikið í skúrnum sínum, hann þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, honum leið ekki vel ef hann hafði ekkert að gera. Hann var alltaf til staðar fyrir ömmu ef hún þurfti á aðstoð hans að halda. Því var það mikið áfall fyrir hann þegar amma veiktist og gat ekki búið lengur heima hjá honum. Fannst honum hann ekki vera nema hálfur maður eftir það. Svo þegar aðstæður höguðu því þannig að þau gátu flutt saman á Garðvang þá leið honum betur að geta verið á návist ömmu eins og áður.

Elsku afi, þín er sárt saknað en við vitum að þér líður vel þar sem þú ert núna og fylgist vel með okkur öllum sem eftir stöndum og leiðbeinir okkur eins og þú gerðir áður. Við vitum líka að nafni þinn hefur tekið þér opnum örmum þegar þú komst og ykkur líður vel saman. En þú hefðir sagt við okkur að við yrðum að vera dugleg, því lífið heldur áfram og það ætlum við að reyna að gera. Elsku amma okkar, missir þinn er mikill og megi góður Guð styrkja þig á þessum erfiðu stundum. Einnig biðjum við góðan Guð að styrkja aðra ástvini sem eiga um sárt að binda.

"Þótt ég sé látinn harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, sál mín lyftist upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur, og ég, þótt látinn sé,tek þátt í gleði ykkar í lífinu."

(Kahlil Gibran.) Hvíl í friði, elsku afi.

Lára, Elísabet, Guðríður og Sóley