Það var þungbær lífsreynsla að vakna morguninn 27. október sl. við hljóð þyrlunnar og fréttir um alvarlegt slys á Mývatni. Skömmu síðar barst fregn um að Sigurgeir Stefánsson - Geiri í Neslöndum - hefði fundist látinn um nóttina. Hugurinn hvarflar til baka til þess tíma þegar eldri börn okkar hjónanna voru í skólanum á Skútustöðum. Tveir skólabræður þeirra voru frá Ytri-Neslöndum, Sigurgeir og Stefán (Geiri og Fáni). Sonur okkar fékk m.a. að fara heim með þeim og gista eina helgina og hafði af því mikla ánægju.

Þeir bræður eru nú báðir látnir af slysförum langt um aldur fram; Stefán fyrir 19 árum þá aðeins 17 ára. Þeim prúða dreng kynnst ég aðeins lítillega en kynni mín af Geira hafa aukist með árunum.

Fáum ef nokkrum hef ég kynnst jafn hjálpsömum og greiðviknum sem honum og gilti þá einu hvort um var að ræða að gera við dekk eða aðstoða ferðamann með bilaðan bíl, lána bílinn sinn eða sýna ferðafólki fugla- og eggjasafnið sem hann kom sjálfur á fót og starfrækti í Ytri-Neslöndum.

Mér er þó minnisstæðast er við hjónin nutum hjálpsemi Geira eitt sinn fyrir u.þ.b. 10 árum. Við vorum á leið til útlanda og fórum akandi til Reykjavíkur. Þegar við vorum í Borgarfirði og komið var fram á kvöld uppgötvuðum við að vegabréfin höfðu gleymst heima. Brottför frá Keflavík var snemma morguninn eftir og góð ráð dýr. Laust fyrir miðnætti fengum við Geira til að koma með vegabréfin á móti syni okkar sem fór akandi frá Reykjavík. Og auðvitað tók hann bón okkar ljúfmannlega eins og við var að búast. Þeir mættust í nágrenni Blönduóss um miðja nótt og utanlandsferðinni var borgið. Svona var Geiri.

Að koma upp safni í Ytri-Neslöndum var einstakt framtak. Í því eru nær allir íslenskir fuglar og egg allra íslenskra varpfugla en við starfrækslu safnsins hefur Geiri líka notið dyggrar aðstoðar fjölskyldu sinnar. Fyrirtæki okkar, Eldá, hefur í allmörg ár beint hópum ferðamanna og einstaklingum í safnið nær daglega á sumrin og höfum við átt mjög ánægjuleg samskipti við Geira og aðra fjölskyldumeðlimi í því sambandi. Og ferðamenn hafa haft mikla ánægju af heimsóknum í safnið. Vonandi tekst að starfrækja það áfram í Ytri-Neslöndum. Þá munu frásagnir af stofnanda safnsins, frumkvöðlinum Sigurgeiri, vekja athygli ferðamanna, jafnt erlendra sem innlendra. Ég minnist samvista við Geira á lognkyrru kvöldi sl. sumar. Hann hafði komið að beiðni minni til að aðstoða ferðafólk sem átti í vandræðum með bíl sinn. Við töluðum um fugla eins og oft áður en hann var kunnugri fuglalífi Mývatnssveitar en flestir aðrir. Hann sgaði mér m.a. frá varpinu í Ytri-Neslöndum sem hann hefur hirt um mörg undanfarin ár. Með natni og góðri umhirðu hefur honum tekist að auka andavarp þar svo að það mun nú óvíða þéttsetnara við Mývatn.

Mig grunaði ekki að leiðir myndu skilja svo fljótt. En að leiðarlokum vil ég þakka ánægjuleg samskipti og hjálpsemi í gegnum árin. Ég trúi því að endurfundirnir við bróðurinn Stefán og aðra ástvini handan móðunnar miklu hafi verið kærleiksríkir og að náttúruunnandinn Geiri í Neslöndum njóti núna nýrrar og æðri fegurðar og friðar. Foreldrum, systkinum og öðrum aðstandendum votta ég dýpstu samúð okkar hjónanna og barna okkar.

Jón Illugason