Ég kynntist Geira fyrst í barnaskóla, mér er minnisstætt þegar þeir komu fyrst í skólann bræðurnir hann og Stefán bróðir hans sem var ári yngri. Nú hafa þeir báðir yfirgefið þennan heim en Stefán lést af slysförum í september 1980. Geiri lét lífið í Mývatni, sem honum var svo kært eins og okkur öllum sem við það búum. Mývatn hefur ekki verið frekt á mannslíf gegnum aldirnar en tók svo þrjú í einu vetfangi nú í októberlok. Örlög manna verða ekki umflúin og líklega hefur almættið vantað bóngóðan og greiðvikinn liðsmann, núna var hans tími kominn. Geiri var mikill félagi og trúnaðarvinur, lúfur í umgengni og jákvæður með afbrigðum. Það var vinsælt að vera með Geira í nefndum í Kiwanisklúbbnum, í þeim voru verkin látin tala. Í ferðalögum og heimsóknum til annarra klúbba var hann helsta driffjöðrin og benti réttilega á að ef við heimsæktum ekki aðra myndum við ekki fá heimsóknir sjálfir. Í vetur ætluðum við á sleðum í Vopnafjörð, það verður skarð fyrir skildi í þeirri ferð. Þegar þurfti bílstjóra á ball, í gufubað, til að fara með ferðamenn í Lofthelli, í vetrarferðir að Dettifossi eða annað kom bara Geiri til greina. Hann átti góðan ferðabíl og hafði unun af að aka fólki auk þess sem hann þekkti nánast hverja þúfu og hvern klett hér á fjöllunum. Í kvæðinu "Við Sellandafjall" yrkir Davíð Stefánsson:

Pétur Snæbjörnsson