Elsku Geiri. Ég trúi því ekki að þú skulir vera farinn og ég eigi aldrei eftir að sjá þig aftur í þessu lífi. Þú sem varst alltaf brosandi og hlæjandi, hvenær sem maður sá þig. Þú varst alltaf tilbúinn að fara með fólk upp á fjöll, á ball eða hvert sem var á bláa Econolininum þínum. Ég mun aldrei gleyma því þegar þú kallaðir á mig núna í sumar og spurðir mig hvort ég vildi ekki koma með í Lofthellinn daginn eftir. Þú vissir að mig var búið að dreyma um það lengi að fara þangað því við höfðum rætt það svo oft. Þú hafðir farið þangað með fleirum og sett upp ljósabúnað svo Jagger gæti komið og skoðað hann, en svo þoldi stjarnan ekki allar hossurnar á leiðinni svo þú þurftir að snúa við með hann og nú þurftuð þið að ná í allan búnaðinn. Svo ferðin var "í boði Jaggers" eins og þú sagðir. Og manstu þegar við vorum að grínast með það í bílnum á leiðinni að þú þyrftir að hengja upp silfurplötu í bílinn og láta grafa á hana öll frægu nöfnin á þeim sem höfðu setið í "stjörnusætinu" í bílnum. Því þú varst alltaf tilbúinn með bílinn þinn ef það þurfti að sýna einhverjum náttúruperlurnar í kringum okkur þangað sem venjulegur bíll kæmist ekki.

Þú áttir líka þetta ótrúlega fugla- og eggjasafn sem á engan sinn líka á Íslandi. Og alltaf vorum við jafn velkomin þegar við komum með ferðamenn til að skoða þetta einstaka safn. Þú varst alltaf smátt og smátt að bæta nýjum fuglum við og mig minnir að í sumar hafirðu sagt mér að þig vantaði bara tvo íslenska fugla í safnið.

Það er sárt að hugsa til þess að þú skulir virkilega vera farinn. Ég reyni að trúa því að þú hafir verið útvalinn til að láta gott af þér leiða einhvers staðar annars staðar. Ég veit að þú vakir yfir okkur öllum. En þín er sárt saknað. Vonandi hittumst við aftur.

Takk fyrir allt.

Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.

Elva