Sárt er að sakna og sárt er að missa. Þetta er eitthvað sem allir fá að reyna eða hafa reynt á sinni lífsleið. Í dag kveðjum við góðan félaga og það er erfitt til þess að hugsa að heyra ekki hláturinn og verða vitni að góðvild hans oftar. Geiri í Neslöndum var hjálpsamur og vildi allt fyrir alla gera, hvort sem það voru nágrannar hans eða venslafólk. Það má segja að Geiri hafi verið allt í öllu, og af mörgu er að taka. Hann var í Kiwanisklúbbnum og kom nálægt leiklistarstússi og svo hafði hann mikinn áhuga á fuglum og átti orðið nokkuð stórt safn. Ung dama, mjög nákomin okkur systkinunum, fann önd sl. vor í sveitinni sem flogið hafði á raflínu. Hún sótti afa og hafði með plastpoka til að setja fuglinn í. Síðan var henni mikið í mun að flýta sér heim og setja fuglinn í frost og biðja afa að hringja í Geira til að gefa honum fuglinn til að stoppa upp. Þegar þessi unga dama vissi um andlát Geira og búið var að útskýra ýmsar spurningar fyrir henni spurði hún hver myndi passa fuglana fyrir Geira? Og hún komst sjálf að niðurstöðu um það að líklega myndu englarnir gera það þegar enginn annar sæi til.

Elsku Geiri, það var okkur sönn ánægja að hafa fengið að kynnast þér. Minningin lifir um góðan dreng, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Kæra fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að styrkja ykkur og vernda.

Auður og Sigurður Kjartansbörn