Þessar ljóðlínur úr Íslandsljóði Einars Benediktssonar koma ósjálfrátt upp í hugann þegar minnst er Egils Ólafssonar á Hnjóti. Hann hefur sýnt okkur það í gegnum árin að vilji er allt sem þarf. Þessi orð eru lýsandi fyrir lífsstarf hans og hugsjón að safna munum og minjum úr sögu okkar Íslendinga til að þeir sem á eftir koma geti betur gert sér grein fyrir lífi og starfi genginna kynslóða. Fyrir þrautseigju og dugnað Egils í gegnum árin eigum við eitt besta minjasafn landsins hér í Örlygshöfn, safn sem ber nafn Egils Ólafssonar og mun bera vitni um ókomin ár framsýni hans og áhuga á sögu okkar.

Ég kynntist Agli fyrst sem fræðimanni þegar nemendur í leiðsögunámi á Vestfjörðum komu í heimsókn á safnið til hans vorið 1994. Hann leiddi okkur um safnið og sagði okkur sögur af hlutunum sem þar voru til sýnis og sagði okkur frá mörgu forvitnilegu. Það var auðséð á öllu að þar fór maður sem unni starfi sínu og hafði á því brennandi áhuga og vildi fræða aðra um það sem fyrir augu bar. Síðan hafa kynni okkar Egils aukist í gegnum ferðaþjónustuna og nú síðast sem samstarfsaðilar í stjórn Minjasafnsins á Hnjóti. Alltaf var jafngott að koma að Hnjóti, hvort sem var sem leiðsögumaður með hóp af fólki eða á fundum safnstjórnarinnar, og ber þar einnig að þakka konu Egils, Ragnheiði Magnúsdóttur, sem átt hefur sinn þátt í uppbyggingu safnsins og hann ekki lítinn.

Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti hefur vaxið og dafnað undir handleiðslu Egils, fyrst til húsa í herbergi í íbúðarhúsi þeirra hjóna á Hnjóti og seinna meir í húsnæði sem reist var fyrir safnið á Hnjóti og vígt hinn 22. júní 1983. Það húsnæði reyndist þó fljótlega of lítið og undanfarin ár hefur verið unnið að viðbyggingu þess, sem enn er ekki búið að taka formlega í notkun, en Egill var þó búinn að vinna mikið við uppsetningu á munum í viðbyggingunni og móta þær sýningar sem þar verða í framtíðinni. Minjasafn Egils hefur vakið mikla athygli þeirra sem þar koma fyrir fjölda og fjölbreytni þeirra muna sem þar eru til sýnis og margir hverjir eru ómetanlegir dýrgripir úr sögu okkar sem hefðu glatast að fullu og öllu ef Egils hefði ekki notið við. Þar eru munir víðsvegar að úr sýslunni sem Egill gerði sér grein fyrir að höfðu sögu að segja og fyrir hans tilstilli eru nú varðveittir til að við og þeir sem á eftir okkur koma geti virt þessa hluti fyrir sér og rifjað upp sögu þeirra. Hann vildi ávallt hag safnsins síns sem bestan og til að tryggja framtíð þess færði hann Barðastrandarsýslu safnið að gjöf. Hann sinnti safnvörslunni sjálfur að mestu leyti en fékk starfsmenn sér til aðstoðar við afgreiðslu á sumrin og við uppsetningar á munum. Egill fann þó að aldurinn færðist yfir og í haust var að hans frumkvæði ákveðið að ráða nýjan safnvörð að safninu og átti eitt af fyrstu verkum hans að vera skráning þeirra muna sem óskráðir voru og saga þeirra til að hún glataðist ekki. Því miður vannst Agli ekki aldur til að vinna við það verk og víst er að mikill fróðleikur hefur glatast við fráfall hans. Við Hjörleifur Guðmundsson, félagar Egils í stjórn minjasafnsins, viljum þakka fyrir samstarfið við hann og votta Ragnheiði Magnúsdóttur konu hans og sonum þeirra og fjölskyldum okkar innilegustu samúð og biðjum Guð að styrkja þau á erfiðum stundum. Blessuð sé minning Egils Ólafssonar.

Lilja Magnúsdóttir, formaður stjórnar minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti