Í dag er Egill Ólafsson safnvörður á Hnjóti borinn til grafar. Ég kynntist honum fyrst þegar hann var flugvallarstjóri á Patreksfirði og leiðbeindi sjúkraflugvélum niður á flugvöllinn gegnum ýmis veður. Yfirgripsmikil þekking hans á veðurfari á þessum slóðum nýttist þá vel og í vondum veðrum réð reynsla hans oft úrslitum. "Varla er það gott, en engan drepur það," sagði hann stundum við slíkar aðstæður og var þá að vitna í gamlan sjómann á Patreksfirði, sem var að leggja út í tvísýnt veður og leist ekki meira en svo á blikuna. Þetta góða skynbragð hans á veður tengdist stærsta áhugamáli hans, atvinnu- og byggðasögu þjóðarinnar. Hann var safnari af guðs náð og honum tókst með ótrúlegum dugnaði að setja á stofn heilsteypt minjasafn um atvinnuhætti liðinna tíma.

Framsýni hans í þessum efnum var með eindæmum. Margir hristu höfuðið í forundran þegar hann hirti gamla flugskýlið á Patreksfirði, sem átti að fara að rífa, og flutti það heim að Hnjóti. Hann einn áttaði sig á því að hér var um að ræða eitt af fyrstu sérsmíðuðu flugskýlum landsins og þess vegna verðmætan safngrip. Þetta flugskýli var upphafið að flugminjasafni hans, sem nú er landsfrægt orðið. Þegar varðveisla minja var annars vegar átti hugmyndaauðgi hans sér engin takmörk. Það þarf meira en meðalmann til að láta sér detta í hug að kaupa úr sér gengna rússneska flugvél og láta lenda henni á söndunum í Örlygshöfn, draga hana síðan heim að safni og hafa þar til sýnis. Þessi flugvél stendur þarna enn og dregur að sér athygli allra sem eiga leið um staðinn. Við söfnun sína þurfti Egill að hafa samskipti við marga og með ljúfmennsku sinni átti hann auðvelt með að fá fólk á sitt band. Hann safnaði ekki aðeins gömlum munum heldur einnig frásögnum af lifnaðarháttum fyrr á tímum og skráði þær niður. Síðasta verk Egils í lifanda lífi var að skrá niður sögur af vegavinnu á Vestfjörðum. Söfnin tvö á Hnjóti eru árangurinn af ævistarfi hans og munu þau halda nafni hans á lofti um ókomin ár.

Hallgrímur Magnússon, læknir Grundarfirði