Mánudaginn 25. október sl. fékk ég lítið bréf frá Agli á Hnjóti, er varðaði málefni safnanna. Bréfi sínu lauk hann með hlýlegri kveðju, eins og jafnan og mér þótti vænt um að fá. Ekki síst vegna þess að síðla sama kvöld hafði Kristinn sonur hans samband til þess að tilkynna mér þá harmafregn að Egill vinur minn væri allur. Hefði andast um kvöldið þar sem hann sat við og skráði upplýsingar er vörðuðu sögu héraðsins.

Fallinn er í valinn einstakur og ógleymanlegur vinur, sem aldrei unni sér hvíldar í vinnu sinni að hugsjónum sínum; varðveislu minja frá fyrri tíð og verndun vestfirskrar þjóðmenningar, í þess hugtaks bestu merkingu.

Egill Ólafsson var sprottinn upp úr vestfirskum jarðvegi. Hann fæddist að Hnjóti í Örlygshöfn, bjó þar og starfaði nær allt sitt líf og lést þar á heimili sínu. Í umhverfinu sem hafði fóstrað hann og hann hafði sjálfur glætt með óbrotgjörnu starfi sínu, sem hafði borið hróður hans og byggðarinnar langt út fyrir landsins strendur. Egill kaus sér starf bóndans. Ræktunarmannsins sem unni nábýlinu við móður náttúru, gerði sér grein fyrir möguleikum hennar og var meðvitaður um skyldur bóndans við komandi kynslóðir. Hann var því landgræðslumaður í bestum skilningi þess orðs, ásamt því að búa góðu búi á föðurleifð sinni. Félagslyndur var hann í besta lagi og vildi leggjast á árarnar í þrotlausri baráttunni fyrir framfaramálum, ekki síst í héraði sínu. Oft ræddum við saman um þau mál og deildum áhyggjum yfir erfiðleikum í landbúnaðinum hin síðari árin. Fækkun fólks í sveitum var honum þung raun, en hann var líka meðvitaður um að nútíminn er breytingagjarn og að til þess að lifa af í slíkum heimi þurfum við geiglaus að takast á við breytingarnar. Starf hans verður að skoða í því ljósi.

Löngu áður en ég kynntist Agli hafði ég heyrt sögur af þessum jaxli sem hefði fyrir eigin atorku byggt upp óviðjafnanlegt safn muna, einkanlega úr vestfirskri fortíð. Menn höfðu við orð að þetta væri mesta safn af sínu tagi í eigu einstaklings á Íslandi. Kynni mín af Agli fylltu mig ómengaðri aðdáun á manninum. Þótt rólegur væri að dagfari leyndist manni ekki að þarna fór fullkominn eldhugi. Þegar talið barst að safninu og gildi þess að varðveita hluti frá gengnum tíma kom eldmóðurinn í ljós. Hann var óþreytandi að skýra út þýðingu þessa. Í hvert skipti sem ég kom að Hnjóti og við gengum um safnið fannst mér sem ótæmandi fróðleiksbrunnur birtist. Frásagnir Hnjótsbóndans gæddu fortíðina nýju lífi. Væntumþykjan og aðdáunin sem birtist í orðum hans er hann lýsti afreksverkum genginna kynslóða gleymist ekki þeim sem á hlýddu.

Árið 1973 tók Egill við starfi umsjónarmanns flugvallarins við Patreksfjörð, auk bústarfa. Þar með efldist áhuginn á því að halda utan um vestfirska flugsögu og raunar flugsögu landsins. Hann dró að sér muni sem tengdust sögu flugsins. Og brátt var risið á Hnjóti ótrúlegt flugsafn, sem hann ánafnaði Flugmálastjórn með bréfi. Um starfsemi safnsins var síðar smíðuð reglugerð og er það nú undir umsjón Flugmálastjórnar.

Uppbygging safnanna að Hnjóti hefur vakið undrun margra. En þá er þess að gæta að Egill fór ekki alltaf troðnar slóðir. Stundum var sem ekki væri hann einhamur, svo miklu fékk hann áorkað. Gildi þeirra gripa sem varðveittir eru á safninu er ómetanlegt og þeir bera vitni um að hann var vakinn og sofinn yfir viðfangsefni sínu og lét ekkert stöðva sig.

Lítil saga er til af því. Þáverandi flugmálastjóri sagði Agli að hið merka flugskýli í Vatnagörðum í Reykjavík hefði verið rifið og ætlunin væri að setja það í stálbræðslu. Egill mætti hins vegar eiga það gæti hann sótt það innan hálfs mánaðar. Þá voru góð ráð dýr. En innan hálfs mánaðar hafði Egill séð svo um, að niðurrifið skýlið, sem vó tugi tonna, var komið upp á bíl. Hann samdi við forráðamenn Eimskips um að flytja það án endurgjalds vestur á Patreksfjörð og þaðan var það flutt út í Örlygshöfn. Nú er skýlið loks að rísa, með öflugum styrk stjórnvalda, sem eins og allir aðrir hrifust með eldmóðinum sem fylgdi Agli þegar hann gekk erinda af þessu tagi.

Ég sagði stundum við Egil, að orðið nei væri ekki til í orðabókum hans, þegar kæmi að því að vinna að framgangi safnanna og varðveislu vestfirskrar þjóðmenningar. Ég veit að oft þótti mönnum nóg um hversu duglega hann fylgdi eftir erindum sínum, hvarvetna sem hann gat því við komið. En það er einmitt vegna þessarar árvekni og þrautseigju, að á Hnjóti í Örlygshöfn stendur nú óforgengilegur minnisvarði um ótrúlegt lífsstarf hugsjónamanns, sem bjargaði mörgum dýrgripnum frá glatkistunni. Þannig hefur hann átt ómetanlegan þátt í að skila komandi kynslóðum fróðleik um liðinn tíma. Fyrir það stöndum við öll í ævarandi þakkarskuld.

Egill leit svo á að starf sitt væri til þess fallið að skjóta nýjum stoðum undir atvinnu og mannlíf á Vestfjörðum. Hann gerði sér grein fyrir því, að Vestfirðir hefðu margt að bjóða og sýna. Hugsun hans var því ekki einasta bundin við varðveislu þjóðmenningarinnar. Hann sá starf af þessu tagi sem lið í því að efla byggð, treysta búsetu og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Þar hafði hann á réttu að standa. Árlegar heimsóknir þúsunda gesta, jafnt innlendra sem erlendra, í söfnin á Hnjóti sýna það og sanna. Sannfærður er ég um að einmitt staðsetning safnanna að Hnjóti, í þjóðbraut þeirra þúsunda sem legga leið sína út á Látrabjarg, skapar í sjálfu sér aðdráttarafl og gefur söfnunum stóraukið gildi.

Með Agli Ólafssyni er nú genginn merkur maður, sem var hollráður vinum sínum og góður heim að sækja. Skyndilegt fráfall hans skilur eftir tómarúm, sem ekki verður fyllt. Ég veit að Egill leit svo á að framundan væri mikilvægt verk við skráningu minja, þar sem hann hlaut að gegna lykilhlutverki. Hann hafði lagt drög að ráðningu fasts menntaðs starfsmanns og hlakkaði til þess vinna að því að koma safngripum fyrir í nýbyggingunni. Hann sá líka fyrir endann á miklum áföngum. Vígsla flugskýlisins og nýbyggingarinnar er áformuð að sumri. Nú verður hann fjarri blessaður, sem drýgstan hlut átti að máli.

En þótt við samferðamennirnir söknum nú vinar í stað er mestur harmur kveðinn að Ragnheiði Magnúsdóttur konu hans, sonunum, eiginkonum þeirra, barnabörnum og ættmönnum öðrum. Egill og Ragnheiður bjuggu í ástríku hjónabandi í nær hálfa öld. Hennar hlutur í uppbyggingunni á Hnjóti var ómetanlegur, þótt ekki bæri alltaf mikið á því. Ég flyt þeim öllum hugheilar samúðarkveðjur mínar og fjölskyldu minnar og vona að minningin um einstakan heiðursmann megi verða þeim styrkur í þeirri raun sem ótímabært fráfall hans veldur.

Einar K. Guðfinnsson