"Skjótt hefur sól brugðið sumri." Svo orti Jónas við hið snögga og óvænta fráfall Bjarna vinar síns Thorarensen. Þessa minntist ég, er mér var tilkynnt hið snögga og óvænta fráfall Egils, á þriðja degi vetrar, degi, sem hann gekk glaður og reifur til starfa, en að snöggu augabragði var hann allur að kvöldi.

Flugvöllurinn á Sandodda hafði ekki verið lengi í notkun, þegar Egill tengdist honum og flugi til Patreksfjarðar. Það var árið 1973, og hafði gengið á ýmsu um flug þangað, og oft snúið frá vegna veðurs. Í framhaldi af því var Egill beðinn um að taka að sér rekstur vallarins sem flutvallarvörður, sem og talstöðvarviðskipti við flugvélar, sem þangað komu. Þarna getur orðið vindasamt, og varasamt í sumum áttum. Engar reglur voru um hámarksvind. Egill útbjó vindrós, með takmarkandi hámarki í vissum áttum, sem enn er notast við að mestu leyti. Með þessum ráðstöfunum, ásamt veðurgleggni og góðum veðurlýsingum, mátti heyra til undantekninga, ef farþegaflugvélar Flugfélags Íslands, og síðar Flugleiða, þyrftu að snúa frá. Ef ekki var fært, var beðið lags. Sjálfur kynntist ég nákvæmni Egils þremur árum síðar og næstu átta ár, er ég starfaði við innanlandsflug Flugleiða. Hann naut mikils álits flugstjóra Flugleiða. Ég minnist þess, er ákveðinn flugvallarvörður hafði gefið veðurlýsingu, sem ekki stóðst, svo menn urðu að snúa frá, þá sagði einn "kollegi": "Já, en hann er nú heldur enginn Egill." En burtséð frá farþegafluginu, þurfti að vaka yfir sjúkra- og neyðarflugi, vera viðbúinn dag og nótt, og flugvöllur og tæki hans að vera í lagi.

Ég hygg, að flugmenn hafi fáa átt tryggari að vinum en Egil og fjölskylduna að Hnjóti. Hann tók þeim öllum jafn ljúfmannlega, og ef menn þurftu að bíða, þá bauð hann heim, og mátti raunar segja, að þau hjónin sætu um þjóðbraut þvera. Þar stjórnaði Ragnheiður þeirra stóra heimili með einstakri rausn og skörungsskap, og aldrei minnst á borgun. Mörg börn voru þarna í fóstri, m.a. margra flugmanna. Hef ég þar sjálfur mikið fyrir að þakka.

Egill var löngu þekktur af minjasöfnun sinni. Söfnun varð snemma hans ástríða - og köllun. Framan af varð hann að geyma allt heima hjá sér. En í júní 1983 opnaði forseti Íslands Minjasafn Egils. Það var stór stund - og áfangi. Síðar stofnaði hann hið einstæða Flugminjasafn Egils Ólafssonar. Þar er verið að leggja lokahönd á uppsetningu hins þýska Junkers-flugskýlis, sem Flugfélag Íslands nr. tvö reisti í Vatnagörðum laust fyrir 1930. Fjölmörg voru framleidd, en þetta mun vera hið eina varðveitta - í öllum heiminum.

Egill var ótrúlega ráða- og úrræðagóður. Hvort sem um var að ræða að koma þrjátíu tonna tréskipi í hlað, sem lið í atvinnusögunni, eða setja upp stýrishúsið af seglskipinu Hammoníu, sem sr. Stefán Eggertsson tók í notkun á Þingeyrarflugvelli. Margir efuðu, að honum tækist margt. Sjálfur efaðist ég um, að honum tækist að bjarga flugskýlinu, og reisa það. En orðið "ómögulegt" var ekki viðurkennt í hans orðasafni. Mikill tími fór einnig í að halda söfnunum fjárhagslega á floti, og gekk á ýmsu. En allt var að snúast til betri vegar. Ég hringdi í hann á sl. afmælisdegi hans, það var sem honum hefði vaxið ásmegin við stuðning nýrra yfirvalda, flugskýlið væri í lokafrágangi, og nýr safnvörður væntanlegur, sem hann gæti þjálfað og sagt til. Honum svall hugur í brjósti.

"Skjótt hefur guð brugðið gleði góðvina þinna." Víst er vinum hans brugðið. Hinn mikli fróðleikur og öll skráning hans, sem framundan var, er glatað. En þakka ber hans góða dagsverk og samfylgd alla. Það sannast á Ragnheiði orð skáldsins: "Maðurinn einn er ei nema hálfur." Hún var hans örvun og drifkraftur. Henni, og vandamönnum öllum, votta ég dýpstu samúð.

Ásmundi H. Ólafsson