Við Egill Ólafsson á Hnjóti höfðum þekkzt í rúm 35 ár, allt frá því ég kom fyrst að Hnjóti vorið 1964 og naut þar alþekktrar gestrisni þeirra hjónanna Ragnheiðar Magnúsdóttur og Egils og vináttu og greiðvikni heimilisfólksins alls. Þá varð mér ljóst hið mikilsverða menningarstarf Egils við að bjarga minjum og heimildum um mannlíf og sögu byggðarlags síns, þar með þjóðarinnar allrar. Margt var í heimili á Hnjóti, þar voru þá einnig gömlu hjónin foreldrar Egils, Ólafur Magnússon og Ólafía Egilsdóttir, hann fæddur þar en hún var frá Sjöundá á Rauðasandi. Þau kunnu margt að segja frá lífi og lifnaðarháttum fyrri tíðar fólks vestur þar, höfðu búið á Hnjóti langa hríð en nú látið bú í hendur syni og tengdadóttur og áttu enn mörg ár ólifuð.

Egill tók fræðaáhuga í arf. Hann var búfræðingur frá Hvanneyri og bjó hér góðu búi, enda Hnjótur mesta búskaparjörð í sveitinni eins og nú var komið. En hann átti sér áhugamál jafnhliða búskapnum, söfnun og varðveizlu hvers kyns muna frá lífi fólks og fyrri búskaparháttum þar um slóðir. Agli var þó ekki aðeins umhugað að safna gripum og varðveita, heldur aflaði hann heimilda um sögu þeirra og notkun. Öllu þessu hélt hann til haga og var þá orðinn manna fróðastur um líf og sögu fólks þar vestra þótt enn væri ungur að árum. Safngripina varðveitti hann á efri hæð í íbúðarhúsinu á Hnjóti, í skápum undir súð og hvar sem fyrir varð komið. Gaman var og fróðlegt að heyra Egil skýra frá og sýna muni sína. Margt var þarna nýstárlegt og margt lærði ég þá, mér áður ókunnugt.

Ég dvaldist nokkra daga þar á Hnjóti og Egill sýndi mér sveitina. Það var mikils um vert að kynnast þeirri kynslóð sem síðust lifði þar við forna búskaparháttu, heyra til dæmis frásagnir Látrabænda af bjargsigum, eftir fugli og eggjum eða með fé í fitubeit í Bjarginu. Egill þekkti þetta einnig vel, hafði sjálfur ungur að árum átt hlut að hinu mikla björgunarafreki er togarinn Dhoon fórst undir Bjarginu, og síðar er togarinn Sargon strandaði undir Hafnarmúla, og verða þau atvik lengi í minnum höfð. Egill gerði ekki mikið úr sjálfs sín afreki við þessar aðstæður, en síðar beitti hann sér fyrir því að reistur var minnisvarði þar við safnið á Hnjóti um þessi sjóslys og þá er fórust.

Agli var einkar lagið að ræða áhugamál sín, og mér var ávallt til mikillar uppörvunar að ræða við hann. Hann naut þó líklegast ekki almenns skilnings framan af við söfnun sína, enda voru eldri kynslóðir frekar aldar upp við að fórna kröftum sínum til brýnustu lífsbjargar. Hann gat hins vegar leyft sér að eiga þessa tómstundaiðju, söfnunin jókst jafnt og þétt og brátt gat loftsrýmið í húsinu á Hnjóti ekki tekið við meiru. Þá var ráðizt í byggingu sérstaks safnhúss, enda naut Egill nú styrks heimahéraðs. Safnið hlaut og viðurkenningu sem raunverulegt byggðasafn og Egill fékk sjálfur ýmsa viðurkenningu á opinberum vettvangi. Margur vildi styrkja hann í verki sínu, enda varð hann brátt víðkunnur fyrir safnið. Hann kynntist mörgum, ekki sízt er hann var orðinn flugvallarstjóri á Patreksfjarðarflugvelli. Margur hvatti hann og sífellt færðist hann meira í fang, og hann lagði í stórvirki sem flestir aðrir hefðu veigrað sér við.

Í safnið á Hnjóti koma þúsundir gesta árlega. Á sumrum er mikil umferð fólks vestur á Látrabjarg. Þá er farið um hlaðið á Hnjóti, þar stanza menn og skoða safnið og þá ræddu menn við Egil. Margur nefndi þá ánægju er hann hefði af að koma í safnið að Hnjóti.

Fyrir nokkrum árum afhentu þau Egill og Ragnheiður Vestur-Barðastrandarsýslu safn sitt, er síðan ber hið formlega nafn Minjasafn Egils Ólafssonar. Egill bar safnið samt sem fyrr mest á sínum herðum og sá um vöxt þess og viðgang. Hann gerði þó enn meira, stofnaði flugminjasafn á vegum Flugmálastjórnar og þótti þó ýmsum sem ofverk væri í reynd einum manni að standa undir því stórræði. En Egill hafði óbeygðan áhuga og vilja, hafði gott lag á að fá menn til liðs, því kom hann mörgu í verk sem fáir aðrir hefðu náð.

Egill stefndi að því að nýir menn tækju við umsjón safnsins. Hann vissi manna bezt að enginn yrði eilífur og hann vildi sjálfur geta fengið öðrum verk sitt í hendur.

Aðrir munu taka upp merkið en ekki verður nú kölluð fram sú þekking sem Egill bjó einn yfir. Þótt margt væri um safnið skráð og komið í bækur er hitt þó margfalt meira sem hann vissi einn og hvergi komst á blað eða bók. En örlögin gripu þá svo skyndilega inn í.

Við Egill ræddum oft saman í síma og hittumst stundum. Hann ræddi þá helzt um safnið og viðgang þess, skýrði frá því sem honum hafði orðið ágengt eða leitaði ráða og aðstoðar. Oft var hann þó sjálfur búinn að finna leiðir og ákveða og hvikaði þá lítt frá því sem hann taldi réttast.

Síðast kom ég að Hnjóti fyrir rúmu ári. Þá hafði Egill orðið var við leifar af skipsflaki undir Hafnarmúla, sem hann hafði áður óljósar hugmyndir um. Hann var ekki í rónni nema tækist að ná upp þessu vogreki, sem hann taldi að gæti verið frá 18. öld. Við vözluðum þarna, Egill og Kristinn sonur hans, í hnédjúpu vatni í Vaðlinum og komum böndum á flakið sem síðan var híft á land. Mikil var gleði safnmannsins Egils er þessir skipsviðir náðu að komast heim á hlað á Hnjóti og hann gat búið þeim stað. Þótt menn stæðu votir og fengju yfir sig gusur gerði hann að gamni sínu er heim var komið, ánægður yfir enn einum feng, einu smábroti úr menningarsögu þjóðarinnar, er sér hefði tekizt að bjarga úr klóm eyðileggingarinnar.

Nú er hann brottu kallaður, að okkur finnst langt um aldur fram, því að hann var í miðjum klíðum starfsins og virtist óbilaður að heilsu og kjarki. En enginn veit sitt skapadægur.

Egill Ólafsson færði stoðir undir menningararf þjóðar sinnar. Starf hans má verða okkur mörgum til eftirbreytni. Þjóðminjavarzlan á honum mikið að þakka.

Þór Magnússon