Snögg umskipti hafa orðið í hinu fámenna samfélagi í Rauðasandshreppi hinum forna.

Einn af burðarásum byggðarlagsins, Egill á Hnjóti, er horfinn úr þessari tilveru án þess þó að hafa sýnt neinn bilbug eða þreytumerki allt fram til hinstu stundar. Það tekur tíma fyrir samferðafólkið að átta sig og eru þessar línur færðar á blað til þess að staðfesta fyrir sjálfum okkur hvernig komið er. Egill tók við búi foreldra sinna á Hnjóti um miðja öldina og þótti snemma ötull og framfarasinnaður, svo að eftir var tekið. Af mikilli framsýni byggði hann upp öll útihús á jörðinni og stórt íbúðarhús að auki. Tæknina tók hann í þjónustu sína með fyrstu mönnum og rak sitt bú yfirleitt af slíkum stórhug og myndarskap að til var tekið langt út fyrir heimasveit.

En þó að Egill væri mikilvirkur í sínu starfi kom það ekki í veg fyrir virkni hans í félagslífi sveitarinnar, og má þar margt til nefna, svo sem landbúnaðarmál og almenn sveitarmál. Þá starfaði hann af alhug í Slysavarnadeildinni Bræðrabandinu, bæði inn á við og kom fram sem fulltrúi þess út á við, ef eftir því var leitað. Horfði hann þá ekki í að greiða sjálfur kostnað af þeim ferðum, þar sem hann þekkti sjálfur fjárhag deildarinnar, sem var ekki sterkur.

Þá er ógetið þess sem borið hefur hróður Egils víðast, en það er uppbygging minjasafnsins, sem við hann er kennt og gefur öllum þeim sem fara um þennan vestasta kjálka Evrópu innsýn í það líf, sem lifað var öldum saman í nánu sambýli við sollið haf og hamraflug. Óhætt er að fullyrða að öllu værum við fáfróðari, ef ekki alls ófróð, um þá hluti ef Egill hefði ekki unnið sitt dýrmæta björgunarstarf. Með starfi þessu sýndi hann ekki aðeins þeim kynslóðum,sem á undan höfðu gengið, sína dýpstu virðingu, heldur helgaði hann með þessu gyðju þekkingarinnar og viskunnar krafta sína af heilum hug. Egill var nefnilega forvitinn maður, í jákvæðustu merkingu þess orðs. Fróðleiksöflun var honum ástríða, en ekki var honum síður annt um að deila þekkingu sinni með öðrum.

Er nú brýnt að eftirkomendur haldi því til haga sem Egill aflaði, leggi rækt við það, auki það og efli, svo að komandi kynslóðir geti sem allra best kynnt sér lífshætti hinna stritandi forfeðra okkar í fjörðum vestur.

Eftirlifandi kona Egils er Ragnheiður Magnúsdóttir, ættuð úr sveitum Borgarfjarðar, og eru þrír synir þeirra á lífi, Ólafur, Kristinn Þór og Gunnar. Fjórði sonurinn, Egill Steinar, lést af slysförum á fermingarárinu sínu og var það mikið áfall fyrir foreldra, föðurforeldra, bræður og alla aðra aðstandendur. Foreldrar Egils, Ólafur og Ólafía, voru á Hnjóti meðan aldur entist. Nutu þau því samvista við son og barnabörn til æviloka og veittu í staðinn fjölskyldunni margháttaðan stuðning af mikilli gleði og fórnfýsi. Var það mikil gæfa fyrir Egil og fjölskyldu hans.

Við Hænvíkingar minnumst Hnjótsheimilisins með sérstakri þökk, er óhætt að segja að svo gott hafi verið á milli fjölskyldnanna að aldrei hafi borið skugga á. Hann var hjálparhella og stuðningsmaður í hverju sem á gekk, þó að stundum virtist hann eiga fullt í fangi með sín eigin viðfangsefni. Við hlið hans stóð hans hjartkæra eiginkona, Ragnheiður Magnúsdóttir, sem nú syrgir eiginmann sinn látinn, sjálf farin að kröftum og heilsu eftir erfiðan en farsælan starfsdag. Sem dæmi um lipurð og skjót viðbrögð Egils skal hér tilfærð ein dæmisaga. Hann starfaði um langt árabil sem flugvallarstjóri við Patreksfjarðarflugvöll, og eitt sinn þurfti bráðveikur sjúklingur að komast undir læknishendur suður til Reykjavíkur. Flugvél hafði verið pöntuð að sunnan, en vegna illviðris hafði hún orðið að snúa frá flugvellinum í Sandodda. Flugvallarstjórinn, Egill, sem var í sjálfu sér ekki aðili að málinu, tók málið að sér og segir: "Við prófum Hörð á Ísafirði." Hann lét ekki sitja við orðin tóm, hringdi norður og gaf Herði upp veður, sem ekki var gott. Eftir ótrúlega skamma stund var Hörður lentur á Patreksfirði, svo að sjúklingurinn fékk sína hjúkrun í tæka tíð.

Er þetta lítið dæmi um einurð Egils og hjálpsemi og væri hægt að segja slíkar sögur af honum án enda. Orðs er gjarna vant þegar miklir atburðir eiga sér stað. Nú höfum við kvatt þennan ótrauða brautryðjanda og trausta samferðamann. Hafi hann heila þökk fyrir alla sína hjálpsemi og allt annað sem hann hefur á sig lagt til þess að bæta umhverfi sitt. Samúðarkveðjur flytjum við Ragnheiði og sonunum sem sjá nú á bak ástríkum eiginmanni og umhyggjusömum föður. Megi huggarinn mikli veita þeim svölun í sorg sinni og gera þeim auðveldara að takast á við tómleikann, sem gjarna fylgir öllum ástvinamissi.

Hænvíkingar